Viðurkenna að það sé gott að vera lítill

Daniel Hannan, þingmaður á Evrópuþinginu.
Daniel Hannan, þingmaður á Evrópuþinginu. Rósa Braga

Minni löndum gengur almennt séð betur en stærri ríkjum og ríkjabandalögum þvert á það sem gjarnan er haldið fram. Þetta segir Daniel Hannan, þingmaður á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn, á heimasíðu sinni á vefsíðu breska dagblaðsins Daily Telegraph en hann er ennfremur dálkahöfundur hjá blaðinu.

Hannan rifjar upp kenningar um að í framtíðinni verði heiminum skipt upp í mjög stór ofurríki sem lítil ríki hafi ekki efni á að standa fyrir utan. Þróunin til þessa hafi hins vegar þvert á móti verið á hinn veginn. Þannig hafi 115 ríki átt aðild að Sameinuðu þjóðunum fyrir hálfri öld síðan en nú séu aðildarríkin 193. Auðugustu ríki heimsins miðað við landsframleiðslu á mann séu ennfremur lítil og meðalstór.

Það hafa ekki síst verið embættismenn Evrópusambandsins sem hafa haldið þessari kenningu á lofti að sögn Hannans. Hann segir þá hins vegar ekki trúa henni sjálfir. Í því sambandi vísar hann í skýrslu sem unnin hafi verið af sambandinu um samskiptin við Ísland sem ekki hafi verið ætluð til opinberrar birtingar. Þar segi meðal annars að landið hafi náð sér eftir efnahagserfiðleikana vegna sjálfstæðs gjaldmiðils.

Þingmaðurinn nefnir einnig umfjöllun um fríverslunarsamning Íslands við Kína í skýrslunni þar sem komi fram að Ísland eigi auðveldara með að ná slíkum samningum við stórar viðskiptablokkir en ESB vegna stærðar sinnar og færri hagsmuna sem vernda þurfi. Með öðrum orðum færri hagsmuni sem þola ekki samkeppni.

„Þar hafið þið það. Embættismenn ESB kunna að leggja áherslu opinberlega á viðskiptablokkir en í einkasamtölum viðurkenna þeir að það sé gott að vera lítill.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka