Talan líklega komin frá nefndinni

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálaráðuneytið taldi að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefði óskað eftir því að miðað væri við 50 milljarða frískuldamark vegna bankaskatts á fjármálafyrirtæki. Hins vegar hafði nefndin falið ráðuneytinu að finna heppilega tölu í þeim efnum. Þetta kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun, að sögn Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, þar sem fulltrúar fjármálaráðuneytisins sátu fyrir svörum vegna málsins.

„Nefndin hafði formlega sent ráðuneytinu beiðni um að gera tillögu að frískuldamarki sem næði því markmiði að veita minni fjármálafyrirtækjum undanþágu frá skattinum. Við vorum ekki að leita eftir neinum nákvæmum tölum heldur grófum tölum,“ segir Frosti. Ekki sé útilokað að 50 milljarða króna talan hafi komið fram í einhverju spjalli við ráðuneytið og þá komið frá meirihlutanum í nefndinni. Fyrir vikið hafi ráðuneytið talið að nefndin væri að miða við 50 milljarða þó það hafi ekki verið gert formlega.

Ekki verið að hlífa MP banka

„Við höfðum í rauninni ekki forsendur í nefndinni til þess að meta hver talan ætti að vera. Það er hins vegar mikilvægt að rætt var um það í nefndinni í morgun hvort þetta væri óeðlileg tala. Það var dreift á fundinum gögnum sem ég tók saman yfir helgina út frá gögnum Fjármálaeftirlitsins og þar kemur í ljós að það er alls ekki hægt að segja að það sé verið að hlífa MP banka,“ segir Frosti.

Hann bendir á að MP banki sé 12 sinnum minni en stóru bankarnir þó að hann sé stærstur litlu bankanna. Ekki væri því eðlilegt að hafa hann á sömu hillu og stóru bankana í ljósi þess markmiðs að setja frískuldamark sem hefði það að markmiði að veita minni fjármálafyrirtækjum undanþágu frá bankaskattinum.

Ennfremur hafi verið rætt á fundinum í morgun um vinnubrögð almennt og að það þyrfti að vera miklu meiri formfesta á því hvernig fara ætti með tölur og annað slíkt og hvað mætti læra af málinu. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafi þurft að fara af fundinum snemma og óskað eftir því að aftur yrði fundað um málið í nefndinni og tekið hafi verið vel í það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert