Aðkoma „Stebbanna“ sama sem engin?

Stefán Logi Sívarsson og Stefán Blackburn fyrir aftan hann.
Stefán Logi Sívarsson og Stefán Blackburn fyrir aftan hann.

Verjendur Stefáns Loga Sívarssonar og Stefáns Blackburn gerðu afar lítið úr aðkomu skjólstæðinga sinna að Stokkseyrarmálinu svonefnda en aðalmeðferð í því lauk undir kvöld. Báðir bera „Stebbarnir“ eins og þeir hafa jafnan verið nefndir við aðalmeðferðina við minnisleysi að miklum hluta.

Ákæruvaldið telur að Stefán Logi og Stefán Blackburn séu aðalmenn í málinu og hafi gengið harðast fram. Farið er fram á sex ára og fimm og hálfs árs fangelsi yfir þeim, en þar koma meðal annars einnig inn í ítrekuð umferðarlagabrot. Mennirnir þrír sem einnig eru ákærðir höfðu mun minna hlutverk og var lítið fjallað um það ofbeldi sem þeir áttu að hafa beitt í málinu. Fólst þeirra þáttur því frekar í að vera til staðar og með viðveru sinni hafi þeir haldið uppi ógn. Saksóknari fer fram á þriggja og fjögurra ára fangelsi yfir þeim.

Aðeins hefur verið komið inn á málflutningsræðu Stefáns Karls Kristjánssonar, verjanda Stefáns Blackburn, á mbl.is í dag en aðeins hvað varðar ákærulið sem fellur ekki undir Stokkseyrarmálið svonefnda. 

Þegar kemur að Stokkseyrarmálinu er um tvo ákæruliði að ræða. Annars vegar vegna frelsissviptingar á ungum karlmanni sem greindi Stefáni Loga frá því að félagi hans hefði átt vingott við barnsmóður hans. Og hins vegar vegna frelsissviptingar á félaganum sem átti vingott við barnsmóður Stefáns Loga. Greint var ítarlega frá framburði þeirra tveggja á mbl.is í desember.

Hvað varðar fyrri ákæruliðinn sagði Stefán Karl: „Jack Nicholson sagði „You can't handle the truth“ í kvikmyndinni A Few Good Men. Lögregla og ákæruvald í þessu máli þola ekki sönnunargögn málsins.“ 

Hann sagði það skýrt í málinu að Stefán Blackburn hefði ekki svipt neinn frelsi, eins og fram kemur í fyrri ákæruliðnum, og ekki beitt hann neinu ofbeldi. Stefán Blackburn muni að vísu ekki atvikum máls, aðallega vegna bílslyss sem hann lenti í, en símagögn og frásagnir vitna beri með sér að Stefán Blackburn hafi ekki átt neinn þátt í ofbeldi í garð mannsins.

Stefán Karl sagði að Stefán Blackburn hefði verið farinn úr íbúðinni þegar ofbeldið átti að hafa átt sér stað. Atburðarrásin sem fór í gang hafi hafist án nokkurrar aðkomu hans og það fari saman við framburð vitna. Hins vegar hafi verið hringt í Stefán Blackburn síðar sama kvöld og hann beðinn um að mæta. „Það er hafið yfir allan vafa að Stefán Blackburn beitti [unga manninn] ekki ofbeldi og svipti hann ekki frelsi. Raunar vék ákæruvaldið ekki einu orði að því að Stefán Blackburn hefði beitt [unga manninn] ofbeldi.“

Hann sagði að ekkert vitni hafi borið um að Stefán Blackburn hefði beitt unga manninn ofbeldi, nema eitt sem ekki hafi verið hægt að leiða fyrir dóminn. Framburður þess vitnis hafi verið óljós og því nauðsynlegt að fá það vitni fyrir dóminn. Um er að ræða vitni sem lést fyrir aðalmeðferðina

Óreglumaður sem aldrei var sviptur frelsi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Stefáns Loga, sagði um þennan ákærulið að ljóst sé að ungi maðurinn hafi verið þarna með félögum sínum og af fúsum og frjálsum. Ekki verði annað merkt af lögregluskýrslum í málinu. Í fyrstu skýrslum hafi hann aldrei gert það að umtalsefni að hann hafi ekki getað yfirgefið samkvæmið þegar hann vildi. Og í raun hafi farið svo að hann gerði það með því að ganga út um útidyrahurðina, án þess að nokkur hafi stöðvað hann.

Þaðan hafi maðurinn farið til félaga síns. Síðar sama dag heimsótti Stefán Logi þann mann og hafi ungi maðurinn engin merki um hræðslu sýnt. „Það getur enginn greint frá upphafstíma frelsissviptingarinnar. Og hvernig lauk henni, jú með því að hann gekk út um útidyrahurðina.“

Hann bætti því við að á þeim tíma sem maðurinn á að hafa verið sviptur frelsi sínu hafi hann samt tekið góðan tíma í að fara inn í herbergi og sprauta sig með sterum. „Hann var ekki frelsissviptum og hvað þá að undirlagi Stefáns Loga.“

Hvað varðar áverka á unga manninum sagði Vilhjálmur að um óreglumann væri að ræða. Hann hafi um seint og síðir farið til læknis og ekkert liggi fyrir um hvað gæti hafa gerst í millitíðinni. Hjá lækninum hafi maðurinn svo hafnað því að láta taka af sér myndir en tekið sjálfur myndir af áverkum sínum. „Það verður að sjálfsögðu ekki byggt á þeim. [Ungi maðurinn] er óreglumaður og sú bjarta mynd sem réttargæslumaður málaði af honum er ekki sönn. Stefán Logi verður ekki sakfelldur fyrir ofbeldi gegn [manninum].“

Á Selfossi samkvæmt símagögnum

Eins og komið hefur fram á mbl.is er sú atburðarrás sem lýst er í öðrum ákærulið ógnvekjandi lesning. Þar var ungur maður sóttur á heimili hans og haldið í tæpan sólarhring gegn vilja sínum en á þeim tíma mátti hann þola langvarandi ofbeldi. Svo segir í ákæru og svo sagði í framburði hans sjálfs. Stefán Blackburn viðurkenndi örlitla aðkomu að þessum ákærulið en Stefán Logi alls enga.

Þannig er að það hefur komið fram hjá öðrum sakborningum að Stefán Blackburn hafi verið með í för þegar ungi maðurinn var sóttur á heimili hans. Þar hafi þeir brotið sér leið inn og veist að manninum. Sjálfur neitar Stefán Blackburn sök og ber við minnisleysi en Stefán Karl sagði sönnun í þessum lið byggða á skjallegum gögnum og framburði vitna. „Það virðist að það sé sannað að Stefán Blackburn fór inn í húsið í [Grafarvogi]. En það er ekkert sem hefur komið fram sem sannar að hann var með hníf.“

Stefán Karl sagði að það verði að teljast sannað að Stefán Blackburn hafi veitt manninum eitt högg og að hann hafi átt þátt í því að hann kom með þeim - en þeir fóru fjórir á heimili mannsins. Þar með hafi hins vegar aðkomu Stefáns Blackburn lokið og hafi hann hvorki beitt manninn frekara ofbeldi né hafi hann líklega verið beittur grófu ofbeldi.

Í málinu var einnig upplýst um það að Stefán Blackburn hafi ásamt öðrum sakborningi farið með manninn á Stokkseyri. Stefán Karl sagði það hins vegar algjörlega ósannað. Þó svo að vitni og brotaþoli hafi verið sammála um að Stefán hafi verið með í för austur gangi símagögn gegn því að Stefán hafi endilega farið á Stokkseyri.

Þannig sýni símagögn fram á að Stefán Blackburn hafi verið á Selfossi á sama tíma og hinn sakborningurinn og brotaþolinn voru á Stokkseyri. Þeir hafi ekki verið á sama tíma á sama stað. Móðir Stefáns búi þannig á Selfossi og hann hafi allt eins getað verið þar.

„Því ber að sýkna Stefán Blackburn. Sakfelling fer gegn gögnum málsins. Og ef hann verður sakfelldur þá verður það aðeins fyrir eitt högg í upphafi málsins í [Grafarvogi]. [...] Stefáni Blackburn verður gerð refsing en hún getur ekki verið gerð vegna annars en þess sem hafið er yfir allan vafa að hann gerði.“

Taldi Stefán Karl að hæfileg refsing fyrir Stefán Blackburn væri hæfileg 10-12 mánaða fangelsi. Kemur það til vegna umferðarlagabrota sem hann hefur játað, og sakarferils.

Ekki að undirlagi Stefáns Loga

Ræða verjanda Stefáns Loga um þennan ákærulið var nokkuð stutt, enda beri ekki nokkurt vitni, nema brotaþoli, um aðkomu hans. Stefán Logi neitar sök að öllu leyti. „Hann kom ekki að [húsinu í Grafarvogi], það er sannað hverjir voru þar að verki og með öllu ósannað að það hafi verið að undirlagi Stefáns Loga.“

Hann sagði það einnig ósannað að maðurinn hafi verið fluttur í Hafnarfjörð að undirlagi Stefáns Loga og að hann hafi verið beittur ofbeldi þar. Sjálfur hafi Stefán Logi komið í Hafnarfjörð í mjög stuttan tíma og hafi ekki verið þar þegar ákvörðun var tekin um að flytja manninn til Stokkseyrar.

Stefán Logi hafi því ekki á nokkurn hátt komið að þessum ákærulið.

En eins og með Stefán Blackburn þá sagði Vilhjálmur að ljóst væri að Stefán Logi verði dæmdur til refsingar. Er það vegna ítrekaðs aksturs undir áhrifum vímuefna sem hann hefur játað.  „Refsing hans er lögð í mat hins virðulega dóms, en hæfileg refsing er eins til fjögurra ára fangelsi, eftir því hvað talið er sannað af ákæruatriðum.“

Að málflutningsræðum loknum var málið dómtekið og verður dómur kveðinn upp á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert