Fær ekki leyfi til að sigla á brott

Skipið Just Mariiam sést hér í Hafnarfjarðarhöfn, gult og grænt …
Skipið Just Mariiam sést hér í Hafnarfjarðarhöfn, gult og grænt að lit. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Við erum að safna gögnum og vinna í málinu í samstarfi við þær stofnanir sem málið varðar eins og lögreglu, tollayfirvöld, samgöngustofu og heilbrigðisyfirvöld. Við höfum kært málið til lögreglunnar og höfum fengið upplýsingar frá tollinum um að skipið fái ekki heimild til þess að fara úr landi vegna málsins.“

Þetta segir Kristinn Már Ársælsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is spurður út í stöðuna varðandi flutningaskipið Just Mariiam sem statt er í Hafnarfjarðarhöfn en það siglir undir fána Moldóvu. Svo virðist sem skipverjar hafi verið að safna brotajárni og spilliefnum hér á landi án tilskyldra leyfa.

Kristinn segir að skipverjar hafi ekki getað framvísað tilskyldum leyfum þegar óskað var eftir því en Umhverfisstofnun fór í eftirlitsferð um borð í skipið í gær í fylgd með lögreglu. Skipverjar höfðu áður haft í hótunum við tökumann Ríkisútvarpsins sem mætti á staðinn til þess að taka myndir.

Í kjölfarið hefur fjölmiðlamönnum ekki verið hleypt inn á hafnarsvæðið þar sem skipið liggur. Þannig var hafnað ósk blaðamanns mbl.is um að fá að fara inn á svæðið til þess að taka myndir af skipinu og vísað í samskipti tökumanns Ríkisútvarpsins við skipverja í gær. Ekki væri áhugi á neinum slíkum vandræðum.

Umhverfisstofnun hefur að sögn kristins verið í sambandi við umboðsmann Just Mariiam hér á landi og óskað eftir því að fá tilskilin gögn. Beðið er eftir því að fá svör við því erindi. Samkvæmt vefsíðunni Marinetraffic.com er ferð skipsins heitið héðan til borgarinnar Trípólí í Líbanon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert