„Sjúklegt hugarfar og mikil mannvonska“

Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason sitja …
Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason sitja fyrir aftan verjendur í málinu.

Réttargæslumaður ungs karlmanns sem sætti ofbeldi eftir að hafa átt vingott við barnsmóður Stefáns Loga Sívarssonar segir að mikil mildi hafi verið að hann hafi sloppið lifandi frá árásunum og í raun aðeins tilviljun sem réði því. Lífsreynslan hafi verið hræðileg og maðurinn muni bera hennar merki alla ævi.

Maðurinn krefst þess að Stefán Logi, Stefán Blackburn og þrír aðrir karlmenn verði dæmdir til að greiða honum 6.250 þúsund krónur í skaða- og miskabætur vegna langvarandi frelsissviptingar og ofbeldis sem hann hlaut, en einnig vegna muna sem stolið var á heimili hans og svo vegna lækniskostnaðar.

Miskabótakrafan er upp á fimm milljónir króna og sagði réttargæslumaðurinn að það væri sanngjörn upphæð miðað við hvað maðurinn mátti þola. „Miskunnarleysi þeirra var í raun algjört en brotaþoli hafði nákvæmlega ekkert til saka unnið. [...] Hann upplifði algjört varnarleysi, þurfti að þola pyntingar og nauðung og óttaðist um líf sitt allan þennan tíma.“

Hann sagði það hafa verið átakanlegt þegar maðurinn lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið afklæddur og bundinn við burðarbita í kjallara íbúðar á Stokkseyri, með mél í munninum, með ofskynjanir vegna lyfja sem hann var þvingaður til að taka auk þess sem tönglast hefði verið á því að ekkert mál væri að láta hann hverfa. Á þeirri stundu hefði hann verið búinn að sætta sig við að hann myndi ekki lifa þetta af. „Þetta er sjúklegt hugarfar og mikil mannvonska árásarmannanna.“

Þá sagði hann gríðarlega röskun hafa orðið á högum mannsins. Hann væri í sálfræðimeðferð og búi úti á landi þar sem hann hefði ekki þorað að búa á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefði sífellt óttast að honum yrði unnið mein að nýju og síðan hefði farið að bera á kvíða, depurð og angist. „Þetta hefur varanlegar afleiðingar fyrir hann, örin á sálinni munu fylgja honum alla ævi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert