„Við það tók líf hans skarpa dýfu“

Stefán Logi Sívarsson mætir ásamt öðrum sakborningum í dómsal eftir …
Stefán Logi Sívarsson mætir ásamt öðrum sakborningum í dómsal eftir hádegishlé í dag. -

Lögmaður Stefáns Loga Sívarssonar fylgdist með því hvernig líf hans tók skarpa dýfu og sá hann falla í fen fíkniefnaneyslu. Hann segir það hafa gerst þegar hann var ranglega dæmdur fyrir nauðgun í janúar 2013. Neysla hans óx frá degi til dags og var Stefán Logi ekki í góðu ástandi í lok júní.

Þetta kom fram í upphafi málflutningsræðu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Stefáns Loga, við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga, Stefáni Blackburn og þremur öðrum. Vilhjálmur sagðist vilja í stuttu máli fara yfir stöðu og hagi Stefáns Loga. „Eins og sjá má á sakarvottorði hans þá hafði hann ekki gerst sekur um hegningarlagabrot um langt skeið þegar hann var ranglega sakfelldur í héraðsdómi fyrir kynferðisbrot í janúarbyrjun 2013. Við það tók líf hans skarpa dýfu og hann hóf fíkniefnaneyslu á nýjan leik. Það er þessum lögmanni fullkunnugt um því ég tók við þessu máli hans í janúar 2013 og fylgdist með því hvernig neysla hans jókst dag frá degi. Þegar ég hitti hann í lok júní sá ég í hversu slæmu ástandi hann var.“

Vilhjálmur nefndi jafnframt að Stefán Logi hefði verið alfarið sýknaður í Hæstarétti af kynferðisbrotinu „og er sá dómur áfellisdómur yfir lögreglu, ákæruvaldinu og virðulegum héraðsdómi, í því máli.“

Þá hafi Stefán Logi lent í hrottalegri líkamsárás í Ystaseli í Breiðholti 17. maí 2013.

Hann sagði að eftir að Stefán Logi var hnepptur í gæsluvarðhald hafi hann hætt allri neyslu á ný og sé á meðferðargangi á Litla-Hrauni. Þar sé hann til fyrirmyndar.

Vilhjálmur sagðist hafa viljað hafa þennan formála á til þess að skýra hvers vegna Stefán Logi muni lítið eftir atvikum máls. Það hafi meðal annars verið vegna mikillar lyfjaneyslu og hins vegar vegna líkamsárásarinnar.

Áverkarnir ósannaðir

Búið er að fara yfir tvo alvarlega ákæruliði á hendur Stefáni Loga á mbl.is fyrr í kvöld. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á barnsmóður sína um miðjan október 2012. Stefán Logi neitar alfarið sök en viðurkennir að hafa verið á staðnum og að þau hafi „tuskast til“. Það sé hins vegar fjarri því sem hann sem komi fram í ákæru. Þar er honum gefið að sök að hafa á heimili hennar bundið belti af baðslopp um hálsinn á henni og dregið hana þannig að hún hafi nærri verið köfnuð.

Vilhjálmur nefndi fjölmörg atriði fyrir því að ekki væri hægt að sakfella Stefán Loga fyrir þessa háttsemi. Fyrir það fyrsta hafi læknisvottorð í málinu verið undirritað af öðrum lækni en hitti barnsmóður Stefáns Loga. Sá læknir hafi ekki komið fyrir dóm og í raun viti enginn hver hann er. Þá séu ljósmyndir sem barnsmóðirin tók sjálf af áverkum ekki sönnunargögn, enda liggi ekki fyrir hver tók þær. Vilhjálmur benti reyndar einnig á að af myndunum að dæma sé ekki hægt að sjá neina áverka.

„Allir áverkar eru ósannaðir og því ber að sýkna. [...] Til vara verður að fella þetta undir 217. grein almennra hegningarlaga, verði það talið að tuskið hafi verið svo alvarlegt,“ sagði Vilhjálmur en 217. grein er minniháttar líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert