Slök mæting er helsta ástæða brotthvarfs

Frá útskrift í MR.
Frá útskrift í MR. mbl.is/Eyþór Árnason

Algengasta ástæða brotthvarfs út framhaldsskólum er slök mæting. Álíka margir piltar og stúlkur hverfa frá námi og meirihluti brottfallsins er úr fjórum skólum. Dæmi eru um að nemendur hafi stundað nám í 5-6 framhaldsskólum.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Kristrúnar Birgisdóttur, sérfræðings í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, á ráðstefnu um brotthvarf í framhaldsskólum sem haldin var á vegum samtakanna Náum áttum í morgun.

Brotthvarf á Íslandi er meðal þess mesta sem þekkist í heiminum. Samkvæmt skilgreiningu OECD er þar miðað við þá nemendur sem innritast í framhaldsskóla og hafa ekki brautskrást sex árum síðar. 

Haustið 2012 kallaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá skólameisturum framhaldsskólanna um þá nemendur sem höfðu horfið frá námi á vorönn 2013. Það var í fyrsta skiptið sem slíkum upplýsingum var safnað með svo kerfisbundnum hætti.

Ýmsar ástæður fyrir brotthvarfi

Samkvæmt þeim upplýsingum hættu 1002 framhaldsskólanemendur námi án þess að ljúka prófum í lok vorannar 2013, þar af fóru 117 í annan skóla þannig að 885 nemendur teljast sem eiginlegir brotthvarfsnemendur. Flestir þeirra voru 20 ára eða yngri,

Ekki er marktækur munur á milli kynja varðandi heildarfjölda þeirra sem hættu í námi, en flestir, eða 251, hættu vegna þess að þeir féllu á mætingu. Önnur algengasta ástæðan var til að fara út á vinnumarkaðinn og þar voru piltar í nokkrum meirihluta og 61 var vísað úr skóla fyrir brot á skólareglum. 63 hættu námi vegna líkamlegra veikinda og voru stúlkur þar í miklum meirihluta og 104 hættu vegna ýmis konar andlegra veikinda. 13 hættu námi vegna neyslu eða meðferðar og 30 hættu námi vegna fjárhagsástæðna.

Þá hættu fjórir í námi vegna félagsfælni, þrjár stúlkur og einn piltur.

Sumir eiga mjög  brotna skólagöngu og dæmi eru um að framhaldsskólanemendur hafi stundað nám í 5-6 skólum. 

Í máli Kristrúnar kom fram að auka þyrfti stuðning við skóla sem taka við þeim nemendum sem eru í mestri brottfallshættu, en meirihluti brottfallsins, 44,8%, er í fjórum skólum, þar af eru þrír á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þyrfti að auka samstarf á milli heilbrigðis- velferðar- og menntamálaráðuneytis.

Nemendur á menntaskólabekk.
Nemendur á menntaskólabekk. mbl.is/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert