Of fá úrræði eru fyrir ungmenni sem líður illa í skólum af ýmsum ástæðum. Þetta er hópur sem getur lagt ýmislegt af mörkum til þjóðfélagsins og þau eiga rétt á að þeim sé hjálpað til að komast á heillavænlega braut. „ Oft er spurt: Hvað getur skólinn gert? Ég vil frekar spyrja: hvað getur íslenska þjóðin gert fyrir þau börn sem þurfa á úrræðum að halda?“
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Þorbjörns Jenssonar forstöðumanns Fjölsmiðjunnar á ráðstefnu um brotthvarf í framhaldsskólum sem haldin var á vegum samtakanna Náum áttum í morgun.
Fjölmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk þar sem því gefst kostur á að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða nám. Hún hefur verið starfrækt í 13 ár, hún var stofnuð af Rauða krossinum og er sjálfseignarstofnun með mikla tengingu við vinnumarkaðinn og félagsleg úrræði.
Yfirleitt eru 70-90 ungmenni þar í einu og um 800 hafa verið þar á þessum 13 árum.„Við sinnum ungu fólki á aldrinum 16-24 ára,“ sagði Þorbjörn. „Fyrirmyndin er dönsk, en þetta passar íslenskum aðstæðum afar vel.“
Hann sagði að um 70% þeirra sem sækja Fjölsmiðjuna séu yngri en 18 ára, flest hafi þau horfið frá námi. Yfirleitt eru þau í 18-24 mánuði í Fjölsmiðjunni. „Þegar þau fara frá okkur kunna þau að vinna og að lynda við vinnufélagana,“ sagði Þorbjörn. „Við höfum fundið leið fyrir um 80% af þeim sem hafa verið hjá okkur, þ.e. þau hafa farið í nám eða vinnu. Ég hef oft litið á þetta þannig að við séum að koma krökkunum á brautina aftur. Við bjóðum upp á hlutanám, þau geta t.d. farið í einstök fög í framhaldsskólum, þau eru þá að hluta í skóla og koma síðan í vinnu í Fjölsmiðjunni.“
Hann sagði nokkurn hluta hópsins vera nemendur úr unglingadeildum grunnskólanna. „Oft er það hópur sem hatar skólann og ætlar aldrei í skólann aftur. Sum hafa lent í einelti og sum eru tölvufíklar. Sum hafa sætt sig við að vera taparar í skólanum og það einkennir viðhorfin þeirra. Brotthvarfsnemendur koma líka til okkar.“
Þorbjörn segir mörg ungmennanna þurfa mikillar eftirfylgni við. Mörg þeirra séu ekki vön að takast á við vandamál daglegs lífs og eigi erfitt með að gera kröfur til sjálfra sín. „Ef þau mæta illa þá förum við oft heim til þeirra og náum í þau. Það er oft með þennan hóp að þau eru vön að hlaupa í burtu frá vandamálunum og það er eitt af okkar stærstu verkefnum að kenna þeim að fást við þau.“
„Það eru allt of fá úrræði í gangi fyrir ungt fólk og þó við séum að sinna ákveðnum hóp erum við hvergi nærri að sinna öllum sem þurfa á því að halda. Þetta eru krakkar sem eru pínulítið á hliðarlínunni,“ sagði Þorbjörn. „En þetta er hópur sem getur lagt heilmikið af mörkum og á skilið og rétt á að þeim sé hjálpað.“