Hvenær hættir maður í skóla?

Nýstúdentar. Sumir þeirra sem teljast brotthvarfsnemendur hér á landi, myndu …
Nýstúdentar. Sumir þeirra sem teljast brotthvarfsnemendur hér á landi, myndu teljast útskrifaðir í öðrum Evrópulöndum segir Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans. mbl.is/Sigurður Jökull

Afar misjafnt er eftir löndum hvernig brotthvarf frá námi er skilgreint. Sumir þeirra sem teljast brotthvarfsnemendur hér á landi, myndu teljast útskrifaðir í öðrum Evrópulöndum.

„Hvenær hættir maður í skóla og hvenær hættir maður ekki í skóla?“ spurði Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans, á ráðstefnu um brotthvarf í framhaldsskólum sem haldin var á vegum samtakanna Náum áttum í morgun.

Að sögn Magnúsar er afar misjafnt er eftir löndum OECD og ESB/EES hvernig brotthvarf úr framhaldsskólum er skilgreint. Skipulag skólakerfa væri mismunandi á milli landa, skil á milli grunn- og framhaldsskóla mismunandi og aðgengi að framhaldsskólum misjafnt.

Þeir þættir sem oftast eru nefndir sem ástæður brotthvarfs eru m.a.  uppbygging skólakerfa, persónubundir, kynbundnir og félagslegir þættir. Magnús spurði hvaða þættir væru á færi skólans að fást við.

Segir kerfið ýta undir brottfall

„Brotthvarf er talið vont vegna þess að lífsgæði þeirra sem hætta eru jafnan talin verri en þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi. Ísland sker sig þó úr í OECD-samanburði, því mennntun virðist ekki vera metin til launa á jafn afgerandi hátt hér á landi og í mörgum ríkjum OECD. Þá hafa menntun og afkoma foreldra minna að segja um velgengni í skóla hér en almennt í OECD-ríkjum,“ sagði Magnús. „Fjölmargt í íslenska skólakerfinu ýtir undir brottfall.“

Hann benti á að inntökuhópar framhaldsskólanna væru afar ólíkir. Sumir tækju einungis við nemendum með háar einkunnir, aðrir tækju nánast við öllum nemendum. Það hefði áhrif á samanburð á milli skóla.

Magnús sagði að þegar talað væri um vinsældir einstakra framhaldsskóla væri yfirleitt átt við fjölda þeirra 10. bekkinga sem sæktu um skólavist. Í því samhengi hafa Verslunarskólinn, MH og Kvennaskólinn yfirleitt verið sagðir vinsælastir. Þegar allir þeir sem sækja um nám væru skoðaðir, þ.m.t. eldri nemendur þá væri Tækniskólinn eftirsóttastur og í kjölfar hans koma Fjölbraut í Ármúla og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti.

Hann sagði að nokkur hópur þeirra sem væru skilgreindir sem brotthvarfsnemendur hefði lokið tilskildum einingafjölda, en hefði engu að síður ekki lokið stúdentsprófi. „Í mörgum löndum OECD og Evrópulöndum væri þessi hópur skilgreindur sem útskrifaður,“ sagði Magnús.

Dýrustu nemendurnir skila minnstu

„Nemendurnir sem hætta fyrir próf skila ekki fjármagni til skólans,“ sagði Magnús. „En það eru stundum þeir nemendur sem við höfum varið mestum tíma og fé í. Nemendur sem hætta vegna námserfiðleika og félagslegra aðstæðna kosta skólann mesta vinnu. „Nemandi sem seiglast í gegn, situr t.d. í falláföngum aftur og aftur skilar aftur á móti mestu til skólans. En stoðkerfi skólanna er í raun umfangsmeira en að skólarnir hafi ráð á því.“

Hann lýsti þeim úrræðum sem gripið hefur verið til í Flensborg til aðstoðar brotthvarfsnemendmr. Áherslan væri lögð á nemandann og bakland hans. „En á endanum er það nemandinn  sjáfur og vilji hans sem ræður úrslitum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka