Mestu breytingar frá setningu Ólafslaga

Ingibjörg Ingvadóttir, formaður sérfræðingahópsins.
Ingibjörg Ingvadóttir, formaður sérfræðingahópsins. mbl.is/Árni Sæberg

Þær breytingar sem lagðar eru til á verðtryggingu neytendalána eru þær mestu frá setningu Ólafslaga árið 1979, að því er fram kom í máli Ingibjargar Ingvadóttur, formanns sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Á blaðamannafundi í dag sagði hún að þjóðin hefði búið með íslensku verðtryggingunni í 35 ár og að engar breytingar hefðu verið gerðar á henni í sextán ár, þrátt fyrir vilja og fyrirheit þar um. Vitundarvakning hefði hins vegar átt sér stað í hruninu.

Í skýrslu sérfræðingahópsins segir að fullt afnám verðtryggingar nýrra neytendalána krefjist hins vegar meiri tíma og yfirlegu. Án vandaðs undirbúnings gæti afnám ógnað fjármálastöðugleika og rýrt stöðu neytenda og lánveitenda. 

Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu séu einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið. Að þessu sé nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og mikilvægt sé að sú vinna gangi greiðlega.

Einnig er lagt til að stjórnvöld hefji eigi síðar en á árinu 2016 vinnu við að meta reynslu af þessum stóru skrefum í átt að afnámi verðtryggingar og móti í framhaldinu áætlun um fullt afnám.

Frétt mbl.is: Hámarkslánstími styttur í 25 ár

Frétt mbl.is: Bann hefði neikvæð áhrif

Frétt mbl.is: Íslandslánin afnumin

Frétt mbl.is: „Ekki hvort, heldur hvernig“

Frétt mbl.is: Fasteignaverð gæti lækkað um 20% 

Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár.
Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert