Þrátt fyrir einstaka uppákomur hefur sambúðin við ungmennin sem koma til dvalar á vistheimilinu Hamarskoti í Flóahreppi gengið mjög vel. Þau hafa aldrei veist að starfsfólki með ofbeldi. Einu sinni hefur drengur af heimilinu brotist inn hjá nágranna og einu sinni hefur komið til slagmála á milli tveggja pilta sem þar dvöldu. „Og það var í miðjum Manchester-leik! Það var skelfilegt,“ segir Sigurður Ingi Sigurðsson, annar eigandi Hamarskots.
Sigurður styður nefnilega Englandsmeistarana í Manchester United af heilum hug, eins og stór félagsmerki í gluggum og á veggjum Hamarskots bera vitni um. Tímasetningin á slagsmálunum hefði sem sagt getað verið betri.
Sigurður og Gerður Hreiðarsdóttir, eiginkona hans, hafa rekið vistheimilið frá árinu 2006. Morgunblaðið tók hús á þeim í vikunni og ræddi við Sigurð en Gerður var upptekin við annað.
Ungmennin sem koma til dvalar í Hamarskoti hafa öll glímt við eiturlyfjafíkn, kvíða eða geðraskanir en ástand þeirra og lífsreynsla er vægast sagt misjöfn. Þau sem eru í verstu málunum hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu. „Og í miklu meiri neyslu en samfélagið gerir sér grein fyrir,“ segir Sigurður. Þessi ungmenni hafi reynt flestöll efni sem hægt sé að láta sér detta í hug. „Þau hafa sprautað sig með fíkniefnum og selt sig eða brotist inn til að eiga fyrir efnunum. Í mörgum tilfellum hafa þau verið heimilislaus.“
Sigurður og Gerður byrjuðu fyrir ellefu árum að taka við börnum, sem höfðu lent út af sporinu, í tímabundið fóstur, 2-3 börnum í senn. Þau fundu fljótt að þörfin væri mun meiri og árið 2006 reistu þau Hamarskot á jarðarskika sem þau höfðu keypt. Vistheimilið var fyrir börn á aldrinum 16-18 ára.
Þegar þau sáu að lítið var í boði fyrir ungmenni sem höfðu náð árangri í meðferð en voru að nálgast 18 ára aldurinn, var tveimur smáhýsum bætt við, hvoru með tveimur 35 fermetra íbúðum. Þau eru ætluð ungmennum á aldrinum 18-20 ára.
Hamarskot getur nú tekið við allt að sex ungmennum og sum hafa dvalið þar í hátt í þrjú ár. Einnig tekur Hamarskot við ófrískum konum í neyslu og þá er ekkert aldurstakmark. Þrjár konur í þessari stöðu hafa komið í Hamarskot.
Þetta eru þó ekki einu ungmennin í Hamarskoti því börn Sigurðar og Gerðar búa þar líka, átta ára tvíburastrákar og tvær dætur þeirra; 11 ára og 19 ára.
Fyrstu fimm árin var Hamarskot nær eingöngu fyrir stúlkur en síðan hefur heimilið verið fyrir bæði kyn.
Áður en þau hófu þessa starfsemi hafði Sigurður unnið í um 1½ ár í Götusmiðjunni sem tók á móti ungmennum sem höfðu lokið meðferð, líkt og Hamarskot gerir nú. „Þá áttaði ég mig á því hvað þörfin væri mikil fyrir krakka sem eru að koma úr meðferð. En það var mikið grín gert að okkur þegar við byggðum Hamarskot því fólk hélt að þetta myndi aldrei fyllast. En við fluttum inn 16. desember 2006 og 21. desember var allt orðið fullt. Og ég held að nýtingin sé búin að vera 91 eða 92 prósent síðan.
Sigurður lifir enn svolítið á hugmyndafræði Götusmiðjunnar; að líta á baráttuna við eiturlyfjaneyslu ungmenna sem „rosalegt“ langtímaverkefni. Nokkrir mánuðir í meðferð eða á vistheimili hafi oft lítið að segja.
Á þessum tíma hefur Sigurður séð mörg kraftaverk gerast. Margir krakkar hafi náð sér á strik – aðrir ekki. Hann segir erfitt að mæla árangur af dvölinni í Hamarskoti eða annars staðar. Sjaldnast sjáist raunverulegur árangur fyrr en eftir að tvítugsaldri er náð, þá sé eins og heilinn hafi loks náð nægum þroska til að ungmennin geti snúið af þessari ógæfubraut. „Okkar starf felst mikið til í því að vernda þau fyrir sjálfum sér og öðrum þangað til þau hafa náð aldri og þroska til að hugsa þetta rétt,“ segir hann.
Krakkar sem hafi farið frá Hamarskoti og haldið áfram neyslu eftir það, hafi hringt í hann mörgum árum seinna og sagt að í dag séu þau edrú og þakki það dvölinni í Hamarskoti fyrir löngu síðan. Oft haldast tengslin svo árum skipti og gamlir vistmenn kíkja stundum í mat um helgar.
Hann segir lykilatriði að vistheimilið sé í sveit því barátta við fíkn og óreglu sé mun erfiðari í þéttbýli. Þegar Hamarskot var opnað hafi ungmenni gjarnan sótt nám eða vinnu inn á Selfoss. Nú eru þau hætt því og vinna aðallega heima í Hamarskoti. „Nálægðin við margmenni og samfélagið er oft erfið. Ef þig langar að detta í það og þú ert einhvers staðar fastur uppi í sveit, þá er kannski hægt að tala þig til. En ef þig langar að detta í það og ert kominn í fíkniefni fjórum mínútum seinna, þá er erfiðara að eiga við það,“ segir hann.
Sigurður leggur mikla áherslu á að í Hamarskoti sé ekki meðferðarheimili heldur vistheimili og enginn sé neyddur til að vera þar. „Ef þeir vilja ekki vera hérna þá koma þeir bara til mín og segja: „Siggi, ég get þetta ekki, ég er farinn.“ Og þá stend ég ekki í dyrunum og slæst við þá. Ég reyni auðvitað að tala um fyrir þeim og í níutíu og eitthvað prósentum tilfella virkar það.“ Stundum virkar það ekki.
Stærstu áföllin verða í kringum jól og páska, þegar ungmennin fara í frí og koma oft tætt til baka. Verslunarmannahelgin er líka erfið. „Það er stanslaust hamrað á því í útvarpinu hvar þú eigir að vera og hversu ölvaður.“ Þessi „upphitun“ byrji mánuði fyrir sjálfa helgina og um leið aukist spenna á heimilinu. „Þá er dálítið mikið um strok og oft eru börnin ekki jafn geðgóð, við skulum orða það þannig.“
Sigurður segir barnaverndarkerfið virka ágætlega, í flestum tilfellum. Það sé helst ef fíkniefnaneysla bætist ofan á geðraskanir sem málin flækist. Einnig sé þörf á einhvers konar úrræðum fyrir krakka sem eru með greiningar, séu t.d. einhverfir. Þá vanti peninga inn í kerfið en það er gömul saga og ný.
Dómskerfið sé hins vegar voðalega dapurt. Dómsmál taki of langan tíma. „Það er erfitt að brjóta af sér 16 ára en þurfa ekki að taka ábyrgð á því fyrr en þú ert orðinn 18 ára,“ segir hann. Þá mætti taka krakka sem byrja ungir í afbrotum fyrr úr umferð. „Ég sé ekki stórkostlegan mun á því hvort 17 ára eða 18 ára drengur stelur bílnum mínum.“ Þessi aldursmunur skipti dómskerfið hins vegar miklu máli.
Neyðarvistunin á Stuðlum sé gagnleg en hún geti í mesta lagi staðið í 14 daga. Það þurfi að bæta við einhvers konar unglingameðferð, sem sé lokuð að einhverju leyti, sem standi lengur. „Ef krakki er búinn að fara inn á mörg meðferðarheimili og ekkert gengur, öll leyfi eru notuð til neyslu og innbrota, þá þarf að hjálpa þeim einstaklingi að ná því að verða 20 ára án þess að eyðilagt líf sitt og rústað öllu í kringum sig.“
Hér kemur Gerður inn í samtalið og bætir við að það vanti meðferðarúrræði fyrir krakka sem eru í neyslu. Þau geti reyndar fengið pláss á Vogi, þegar aðstæður séu þannig, en þau geti líka gengið þaðan út þegar þeim hentar, jafnvel samdægurs. Þá sé ekkert endilega hringt í foreldra, jafnvel þótt börnin séu ekki orðin 18 ára, og foreldrarnir haldi jafnvel að þau séu enn á Vogi.
Rekstur Hamarskots er greiddur af Barnaverndarstofu og sveitarfélögum sem senda ungmenni þangað. Auk Gerðar og Sigurðar eru þar tveir starfsmenn. Sigurður drýgir tekjurnar með því að aka skólabíl í sveitinni.
Vinnutíminn er langur, unnið flestar helgar og í raun alltaf verið á bakvakt. Launin eru ekki há og starfið erfitt.
Hvers vegna stendur hann í þessu? „Ætli maður sé ekki bara að borga fyrir gamlar syndir,“ segir Sigurður og lítur í átt til himins. „Ég var samt aldrei á þessum stað sem krakkarnir eru á,“ bætir hann við.
Og hversu lengi ætlar hann að halda áfram? „Þangað til ég fæ skilaboð um að allt sé orðið í lagi,“ segir hann og lítur til himins og brosir. „Annars er ég Jósepstrúarmaður. Ég trúi á Jósep, fósturföður Jesú. Hitt verður allt svo flókið.“
Sigurður segir að eggjasala úr landnámshænum sé „mínusrekstur dauðans“ enda verpi þær bara annan hvern dag – kannski. Þegar hann var að því kominn að gefast upp á rekstrinum fréttu eigendur Fjarðarkaupa af stöðunni. „Þeir voru svo hrifnir af þessu að þeir sögðu bara: Siggi, hvað þarftu mikið til að gera þetta almennilegt. Og ég krassaði bara eitthvað niður á blað og þeir lögðu fram peningana.“
Sigurður og Gerður hafa áhuga á að reisa skemmu við húsið til að hægt sé að bjóða ungmennunum fleiri möguleika á atvinnu. Þar mætti vera með 2-3 hesta og koma fyrir gömlum bílum og gera þá upp. Þar fengist líka betri aðstaða fyrir timburvinnsluna. Sigurður áætlar að skemman kosti 15 milljónir. Byggingin er búin að fá 200.000 krónur í styrk úr minningarsjóði Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur, sem lést af völdum fíkniefna 3. júní 2010, aðeins 17 ára gömul.
Óhapp sem varð í fyrra þrengir aðeins að atvinnurekstrinum. Þá brann allt innvolsið í bílskúrnum. Bruninn varð með þeim hætti að unglingspilti sem var þar í vist var falið að hreinsa litlar járnstyttur af verndarenglum sem til stóð að selja í fjáröflunarskyni. Nota þurfti þynni til að hreinsa stytturnar og var piltinum ítrekað gert ljóst að alls ekki mætti reykja við þessa vinnu. Reykingabannið gleymdist, glóð datt ofan í þynninn og mikill eldur varð af. Gerður segist fegnust því að pilturinn hafi ekki meiðst illa. „Svona fer þetta stundum,“ segir hún.