Fríverslunarsamningur Íslands við Kína var til umræðu á Alþingi í dag en önnur umræða um þingsályktunartillögu um staðfestingu hans fór þá fram. Samningurinn var undirritaður í apríl síðastliðnum en formlegar viðræður um hann hófust árið 2007 í tíð þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði um þingsályktunartillöguna í næstu viku. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði að yrði fríverslunarsamningurinn samþykktur tæki hann líklega formlega gildi í júní eða júlí í sumar. Sagðist hann binda vonir við að samningurinn leiddi til vaxandi viðskipta á milli landanna.
Þingmenn voru almennt jákvæðir í garð fríverslunarsamningsins en nokkur umræða fór þó fram um stöðu mannréttindamála í Kína. Þingmenn Pírata lýstu áhyggjum af því að íslensk stjórnvöld kynnu að beita sér síður gegn mannréttindabrotum Kínverja vegna þeirra viðskiptahagsmuna sem fælust í samningnum og vísuðu meðal annars til Tíbets. Eins með íslensk fyrirtæki.
Gunnar Bragi sagðist ekki hafa áhyggjur af því og undir það tók meðal annars forveri hans í embætti utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson. Ráðherrann benti á að Ísland væri aðili að fríverslunarsamningum við tugi ríkja í gegnum aðild landsins að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og fleiri væru í bígerð.
Þannig stæði EFTA meðal annars í fríverslunarviðræðum við Indland og Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan auk þess sem Bandaríkjamenn væru líklega reiðubúnir að ræða hliðstæðan samning og þeir stæðu í viðræðum um við Evrópusambandið. Það væri þannig ýmislegt í gangi sem minnkaði líkurnar á að Ísland væri einhverjum einum háð varðandi viðskipti.