„Skólastarfið í landinu snýr að okkur öllum. Þetta er eitt mikilvægasta málið sem við erum að fjalla um á vettvangi hins opinbera og ég vil fá sem víðtækasta umræðu um þetta mál,“ sagði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um framhaldsskólana. Málshefjandi var Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Svandís benti í máli sínu á að starfsemi framhaldsskólanna væri löngu komin að sársaukamörkum vegna niðurskurðar og aðhaldskrafna á undanförnum árum. Kennarar og skólastjórnendur hefðu lagt á sig aukna vinnu, meira álag og stærri hópa nemenda og á sama tíma búið við skertan kaupmátt. Nú væri hins vegar nóg komið. Það hafi valdið vonbrigðum að ný ríkisstjórn ætlaði framhaldsskólunum að taka á sig frekari skerðingar.
Fjárframlög til rekstur skólanna ekki skert
Svandís rifjaði upp að menntamálaráðherra hefði kynnt gerð hvítbókar í þessum efnum og spurði hver markmið með þeirri vinnu væri, hverjir kæmu að henni og hvernig hún yrði kynnt. Varaði hún ennfremur við styttingu framhaldsskólans ef markmiðið væri einungis á rekstrarlegs eðlis. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi fjölbreyti í skólastarfinu og að komið yrði sem mest til móts við hvern og einn og mögulegt væri. Þá nefndi hún kjör kennara sem yrði að leiðrétta.
Hvað fjárframlög til framhaldsskólanna benti Illugi á að með síðustu fjárlögum hefðu framlög til reksturs skólanna ekki verið skert. Aðrir þættir hafi orðið fyrir niðurskurði en rekstur þeirra hafi ekki verið skertur. Það skipti máli. Þvert á móti hefði reksturinn verið verðbættur og hækkanir frá árinu áður látnar halda sér. Það breytti því ekki að það vantaði fjármuni á framhaldsskólastiginu. það væri augljóst.
Mikil tækifæri í íslenska menntakerfinu
Ráðherrann sagði ennfremur að það væri ekki ástæðan fyrir áætlunum hans um að stytta nám í framhaldsskólum að spara fjármuni ríkisins. Það sem máli skipti væri tími nemendanna og hvernig þeir gætu nýtt hans sem best. Ísland væri eina landið í OECD þar sem það tæki 14 ár að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám. Annars staðar tæki það 12-13 ár. Sagðist hann geta fullyrt að ætti við á heimsvísu.
Illugi sagðist telja að mikil tækifæri væru framundan til þess að bæta íslenska menntakerfið. Ekki vegna þess að það væri slæmt heldur vegna þess að alltaf mætti koma á umbótum og oft væri það nauðsyn. Ekki síst tvennt. Annars vegar varðandi læsi og endurskipulagning á námi á framhalsskólastiginu.
Víðtækt samstarf haft vegna hvítbókar
Hvað hvítbókina varðaði og vinnu við hana sagði Illugi að einkum væri stuðst við starfsmenn menntamálaráðuneytisins. Hins vegar hefði einnig verið ráðgast óformlega við ýmsa aðila í þeim efnum á undanförnum vikum og mánuðum vegna hennar. Bæði til að mynda fulltrúa frá Kennarasambandi Íslands, Félagi framhaldsskólanema og sveitarstjórnum.
Lagði hann áherslu á að ekki yrði um að ræða stefnuplagg sem hrint yrði í framkvæmd heldur umræðugrundvöll sem síðar þyrfti að útfæra nánar í samráði við þá aðila sem málið varðaði. Þegar hvítbókin lægi fyrir hefði hann í hyggju að fara á sem flesta staði og kynna það fyrir almenningi enda skipti skólastarfið í landinu alla landsmenn máli og sneri að öllum.
Kallaði eftir samstöðu um fyrirkomulag skólanna
Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á mikilvægi þess að samstaða væri um fyrirkomulag framhaldsskólanna. Sagði hann skilaboðin út í samfélagið að skera ætti niður í samneyslunni á sama tíma og þeir sem betur hefði það væru aftur farnar að raka að sér fé. Spurði hann hvort það væri þannig sem þingmenn vildu hafa það. Hann vildi ekki taka þátt í því. Kallaði hann eftir auknu samráði í þessum efnum.
Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að minnst fjármagn væri lagt til framhaldsskólanna af skólastigum landsins. Ljóst væri að aðbúnaður skólanna yrði að batna.