Aldrei fleiri þorrabjórar

Þorrabjór
Þorrabjór Þórður

Þorrabjórarnir sem koma í Vínbúðirnar fyrir þorrann í ár eru átta talsins og veit undirritaður ekki til þess að jafnmargir þorrabjórar hafi komið út áður. Bragð, litur og áferð er mismunandi frá einum til annars enda bjórstílarnir sem um ræðir margvíslegir. Í úrvalinu í ár er að finna jafn ólíkar tegundir og imperial stout, bock, bitter og síðast en ekki síst er mjöður þeirra á meðal.

Hvalreki á fjörur bjórunnenda?

Brugghúsið Steðji kynnir í fyrsta sinn til leiks sérbruggaðan þorrabjór og nefnist hann einfaldlega Hvalur. Óhætt er að segja að Steðji komi með látum inn á markaðinn en eins og talsvert hefur verið fjallað um í fréttum er bjórinn bruggaður með hvalmjöli í samstarfi við Hval hf. Ekki er tiltakanlega mikið af hvalmjöli í bjórnum, eða um 500 gr í hverjum þúsund lítrum, en samt sem áður hefur staðið allnokkur styr um framleiðsluna. Hafa til að mynda erlendir aðilar haft samband við Dagbjart Ingvar Arilíusson, framkvæmdastjóra Steðja, og jafnvel haft í hótunum við hann. Þá hefur Heilbrigðiseftirlit Vesturlands viljað stöðva framleiðsluna þar eð Steðji hafi ekki starfsleyfi til framleiðslu á mjöli til matvælaiðju. Framleiðendur benda aftur á móti á að drykkurinn sé heilnæmur enda sé hvalmjölið mjög próteinríkt og nánast engin fita í því. Hvalbragðið kemur fram í undirtóni bjórsins og einnig vel í eftirbragðinu. Bjórinn er með 5,2% áfengismagn og er hann síaður og gerilsneyddur.

Bitter á breska vísu

Frá Vífilfelli koma tveir ólíkir bjórar sem eru bjóráhugamönnum að góðu kunnir. Það eru Einiberja Bock og Þorraþræll. „Þorraþræll er mjög skemmtilegur bjór í breskum stíl sem nefnist Extra Special Bitter,“ útskýrir Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri áfengis hjá Vífilfelli. „Í hann er notað sérstakt breskt pale ale malt, breskt ölger og East Kent Golding humlar sem gefa bjórnum einstakt yfirbragð.“ Extra Special Bitter bjórar eru yfirleitt frá 4,8% og uppúr í styrkleika og Þorraþrællinn fellur akkúrat á neðri mörkin, að sögn Hreiðars. Þorraþræll er fyrsti íslenski bitter bjórinn. Hann bendir á að þrátt fyrir heitið, Extra Special Bitter, sé Þorraþræll ekki mjög beiskur. „Þvert á móti er jafnvægið gott og bjórinn mjög bragðgóður – sérstaklega er hann góður með mat.“

Úrvals Einiberja Bock

Í Svíþjóð og Finnlandi tíðkast að brugga sérstakan bjór með einiberjum og slíkur bjór þykir mikill heilsudrykkur,“ segir Hreiðar Þór. „Í náttúrulækningum hafa einiber verið notuð við ýmsum kvillum. Þau örva nýrun og hafa þvagræsandi áhrif og virka vel gegn ýmsum bólgum og vökvasöfnum í liðum auk þess að hafa góð áhrif á meltinguna og vinna gegn brjóstsviða og þembu. Einnig eru þau örveru hemjandi og hafa verið notuð gegn þrálátum þvagrásarsýkingum, húðvandamálum og ýmsum öðrum kvillum.“

Vegna alls þessa þótti tilvalið að þróa nýjan bjór með einiber sem krydd. Ákveðið var að brugga sterkan lagerbjór í Bock stíl þar einber eru notuð að nokkru leyti í stað humla til að gefa karakter. „Til að fá mýkri áferð og aukna fyllingu eru notaðir hafrar og hveitimalt en grunnurinn er Munich malt sem gefur dekkri lit og ríkulega maltað bragð.“ Einiberja Bock er sjötti bjórinn sem kemur frá Íslensku úrvals-fjölskyldunni, að því er Hreiðar Þór útskýrir. „Samkvæmt sögunni notuðu víkingar fyrr á öldum einiber í mjöðinn sinn og því má segja að Baldur bruggmeistari sé að halda á lofti heiðri Víkinganna með þessari nýjung í íslenskri bjórgerð,“ bætir hann við.

Kraftmikill Þorra Kaldi

Bruggsmiðjan á Árskógssandi hefur um árabil lagt áherslu á árstíðabundna bjóra og hefur Þorra Kaldi notið hylli rétt eins og aðrir sérbruggaðir bjórar sem bera nafn Kalda. Þorra Kaldi er koparlitaður lager bjór með mikilli beiskju og ríkri humlalykt. „Í bjórnum eru notaðar þrjár tegundir af tékknesku malti, ásamt tékkneskum og nýsjálenskum humlum,“ segir Agnes Sigurðardóttir hjá Bruggsmiðjunni.

Þorra Kaldi er 5,6% að áfengismagni og er sá sterkasti sem framleiddur er í Bruggsmiðjunni. Bjórinn er nokkuð beiskur með góðu eftirbragði, og froðan er þétt og falleg á litinn. „Þorra Kaldi hentar því einstaklega vel með þorramatnum, og ekki síður einn og sér,“ bætir Agnes við.

Brúnn og sætur Gæðingur

Í ár sendir brugghúsið Gæðingur frá sér þorrabjór í þriðja sinnið. „Stíllinn sem þorrabjórinn okkar er bruggaður í er brúnöl, eða brown ale, og það er ósíað,“ segir Árni Hafstað hjá Gæðingi. „Bjórinn er tæp sex prósent að áfengisinnihaldi og auðdrekkanlegur af brúnöli að vera. Bjórinn er nokkuð matarmikill og með góðu „boddíi“ eins og maður segir á vondri íslensku. Við getum sagt að ég hefði ekkert á móti því að hitta konu með sama lit og sama boddí,“ bætir Árni við og hlær. „En án gamans þá er það svo með jólabjóra og þorrabjóra, að mér finnst þeir helst eiga að vera í takt við það sem [Silvio] Berlusconi sagði um Bandaríkjaforseta, að hann sé brúnn og sætur.“ Árni bendir á að maltgrunnurinn sé sá sami og í fyrra en humlarnir séu aðrir í ár. „Við notum willamette humla að þessu sinni í stað cascade, sem við notuðum í fyrra. Það gerir það að verkum að þorrabjórinn er aðeins vinalegri í ár og auðdrekkanlegri. Hann stingur mann ekki svo mjög en skilur þeim mun meira eftir.“

Helhumlaður Surtur nr. 23

Fyrir þorrann 2014 er væntanlegur þriðji Surturinn frá Borg og er hann í bjórstílnum Imperial Stout að venju, 10% að áfengismagni. Að sögn sérfræðinga Borgar liggur sérstaða Surtsins í ár fyrst og fremst í dágóðri þurrhumlun að amerískum hætti. „Humlarnir gera það að verkum að ölið er ótrúlega auðdrekkanlegt, þrátt fyrir mikla bragðupplifun og áfengisinnihald.“ Surtirnir frá Borg hafa vakið umtalsverða athygli, bæði hér heima og erlendis. Mbl.is greindi meðal annars frá netgrein eftir hinn heimsþekkta bjórsérfræðing, Adrian Tierrey-Jones, þar sem hann dásamar Surt nr. 8.1, sem leit dagsins ljós á seinasta þorra. Óhætt er að segja að ekki hafi verið beðið eftir nokkrum bjór með jafn mikilli eftirvæntingu undanfarin ár og mynduðust til að mynda raðir fyrir utan stærstu Vínbúðirnar á bóndadagsmorgun á seinasta ári – eitthvað sem ekki hefur sést síðan 1. mars. 1989.

Surtur er þykkt og þolgott öl, dekkri en sjálft Ginnungagap. Undir þykkri froðunni kraumar bragðið af eld-ristuðu korni og brenndum sykri í anda Eddukvæðanna, í bland við dökkt súkkulaði, rammsterkt kaffi og lakkrístóna.

Mjöðurinn Kvasir er ekki bjór

Þau tímamót verða á þorranum í ár að einn þorrabjórinn er alls ekki bjór – heldur mjöður. Nefnist hann Kvasir nr. 22 og kemur frá Borg brugghúsi. Til að byrja með er því best að leiðrétta algengan misskilning. Mjöður er ekki bjór, eins og Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi, útskýrir. „Mjöður er hunangsvín, gerjað, vatnsblandað hunang.“ Til áréttingar skal útskýrt að bjór er vatn, maltað bygg, humlar og ger. Mjöður er aftur á móti vatn, hunang og ger. Mjöður er því í reynd nær léttvíni en bjór, merkilegt nokk. Hugmyndir fólks um íslenska víkinga og aðra vaska menn þambandi mjöð eru því líkast til ekki í takt við raunveruleikann. Á Íslandi hefur ekki verið hunangsrækt og hunang hefur alla tíð verið dýr munaðarvara sem tæpast hefur ratað hingað til lands. Ennfremur var það tæplega verkamannavíkingurinn sem drakk mjöð erlendis þar sem þetta var konunga- og höfðingjadrykkur sökum aðfangaverðs. En hvað kom þá til að þeir Borgarar afréðu að ráðast í mjaðarbrugg? „Sem bruggari, bjórnörd og áhugamaður um sagnfræði þá blundaði þetta nú alltaf í manni,“ segir Sturlaugur. „Það var því lag að hræra í mjöð fyrir þorrann í ár og gefa fólki kost á að bragða á þessum spennandi drykk.“

Dimmt glóir Gullið

Þorragullið kemur í vínbúðirnar í þriðja sinnið í ár. Sem fyrr er þar um að ræða lagerbjór með 5,6% áfengismagn, unnin úr ómöltuðu byggi, með mildri beiskju og humlakeim. Þar sem Þorragullið er bruggað með íslensku byggi er bjórinn sérstaklega þjóðlegur og um leið auðdrekkanlegur, að sögn sérfræðinga Ölgerðarinnar. Þó kveður við nýjan tón að einu leyti. Liturinn er mun dekkri en undanfarin ár og hefur það með bygguppskeruna að gera.

Hér má finna Þorrabjóranna á vef Vínbúðarinnar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert