„Þetta var mjög góður og gagnlegur fundur. Við fengum sjónarmið allra þeirra stofnana sem eiga aðkomu að málinu og mín tilfinning er sú að þetta sé í ágætis farvegi í stjórnsýslunni. Hún er einfaldlega að fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem henni er uppálagt að fara eftir.“
Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, en fundað var í nefndinni í morgun um flutningaskipið Just Mariiam sem statt er í Hafnarfjarðarhöfn en virðist sem skipverjar hafi verið að safna brotajárni og spilliefnum hér á landi án tilskyldra leyfa.
„En það er vissulega ágreiningur um það hvenær vara telst vera orðin að úrgangi. Það er skilgreining í lögum eitthvað á þá vegu að ef fólk er hætt reglubundinni notkun þá þurfi að fara með úrganginn til móttökuhafa og fá úr því skorið hvort til staðar séu spillingarefni og annað,“ segir hann. Þá hafi komið fram á fundinum að skip hafi áður safnað slíkum varningi hér á landi án þess að gerðar væru sambærilegar athugasemdir við það og nú.
Umhverfisstofnun sé hins vegar fast á þeirri skoðun að í þessu tilfelli sé mestmegnis um úrgang að ræða og því brot á bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum.