Lítur á allan farminn sem spilliefni

Skipið Just Mariiam sést hér í Hafnarfjarðarhöfn, gult og grænt …
Skipið Just Mariiam sést hér í Hafnarfjarðarhöfn, gult og grænt að lit. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Við höfum verið í samskiptum við umboðsmann skipsins í dag og óskuðu þeir eftir fresti til að koma sjónarmiðum og gögnum á framfæri,“ segir Kristinn Már Ársælsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is spurður um stöðu mála varðandi flutningaskipið Just Mariiam sem legið hefur í Hafnarfjarðarhöfn að undanförnu en talið er að skipverjar hafi safnað spilliefnum og brotajárni hér á landi án tilskilinna leyfa.

Kristinn segir Umhverfisstofnun ekki reikna með því að einhver ákvörðun verði tekin í málinu um helgina enda málið enn í vinnslu með það að markmiði að fullnægja kröfum í lögum og reglum hérlendis. Umhverfisstofnun fór á dögunum í eftirlitsferð í Just Miriiam. Í bréfi sem stofnunin sendi umboðsmanni skipsins hér á landi í vikunni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við þann varning sem til stendur að flytja úr landi og aðstæður um borð.

Tækjum staflað hvert á annað og jafnvel á hvolfi

Þannig hafi Umhverfisstofnun orð skipverja fyrir því að vökvar og aðrir hættulegir íhlutir séu ekki hreinsaðir úr tækjum fyrir lestun. Er þar til að mynda vísað til leifa af vörubílum og lyfturum. Um úrgang sé að ræða að mati stofnunarinnar í ljósi laga. Þá gerir Umhverfisstofnun einnig til að mynda athugasemdir við að tækjum sé staflað ofan á hvert annað í lest skipsins og jafnvel á hvolfi. Um mikla mengunarhættu sé að ræða af því. Ekki sé heimilt lögum samkvæmt að blanda saman spilliefnum við annan úrgang og því líti Umhverfisstofnun á allan farm skipsins sem spilliefni.

Var útgerð Just Mariiam, eiganda farmsins og umboðsaðila skipsins veittur frestur til hádegis í dag til þess að gera athugasemdir við áform Umhverfisstofnunar um að veita útgerðinni áminningu og gera kröfu um úrbætur hvað varðar farm skipsins. Eins og áður segir óskuðu umboðsmenn skipsins eftir fresti til þess að koma sjónarmiðum sínum og gögnum varðandi málið á framfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert