Ræddu ekki við „kenjótta ofjarla“

Frá fríverslunarviðræðum Íslands og Kína í Reykjavík í desember 2012.
Frá fríverslunarviðræðum Íslands og Kína í Reykjavík í desember 2012. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

„Hér var ekki um fífldirfsku að ræða og áttum við svo sannarlega ekki í viðræðum við kenjótta ofjarla frá Kína. Meira en fjörtíu ára reynslu í viðræðum um fríverslun og að verja hagsmuni okkar út á við kom sér vel og þar höfðu við töluvert forskot á Kínverja sem tóku sín fyrstu skref út í hið alþjóðlega viðskiptakerfi með aðild að alþjóðaviðskiptastofnuninni 2002 og gerðu fyrsta fríverslunarsamninginn árið 2004 og þá við sjálfsstjórnarsvæði Hong Kong og Makáa.“

Þannig lýkur pistli eftir Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra, á bloggvef utanríkisráðuneytisins þar sem hún fjallar um fríverslunarviðræðurnar við Kína sem lauk með undirritun fríverslunarsamnings í apríl á síðasta ári. Samningurinn var ræddur á Alþingi síðastliðinn fimmtudaginn en gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði um hann í þinginu í næstu viku og að hann taki formlega gildi í sumar verði hann samþykktur sem allar líkur verða að teljast á að verði niðurstaðan.

Öll ríki í raun lítil í samanburði við Kína

Bergdís segir í pistlinum að sú mynd sem margir kunni að hafa ímyndað sér að íslensku samningamennirnir væru að eiga við ofjarla sína í ljósi þess hversu mikill stærðarmunur sé á Íslandi og Kína einkum hvað fólksfjölda varðar. Það hafi hins vegar alls ekki verið raunin. „Í viðræðunum við Kína kom það í hlut Íslands að leggja til texta að samningi og var þá stuðst við þá samninga sem við höfðum þegar gert í samfloti við önnur EFTA ríki og því voru það við sem þekktum betur orðalag, ástæður og bakgrunn þeirra texta sem unnið var með, sem var svo sannarlega kostur.“

Hún bendir ennfremur á í því sambandi að öll ríki séu í raun lítil í þessum efnum. Gildi þá einu hvort ríki telji hundruð þúsunda manna eða milljónir. „Þeir sem velkjast um í heimi alþjóðlegra viðskipta hitta oftsinnis sömu sérfræðinga fyrir. Jafnvel fjölmenn ríki eiga ekki á að skipa mörgum sérfræðingum á hverju sviði, hvert sérsvið er heimur út af fyrir sig, eins og önnur svið þjóðlífsins, í listum, viðskiptum, íþróttum eða vísindum. Það sama á við í Kína. Stjórnkerfið sem virðist ógnarstórt teflir einatt fram sömu sérfræðingunum. Beri maður saman bækur sínar við kollega annars staðar kemur t.d. í ljós að sá sem stjórnar ferðinni í tollamálunum situr hinum megin borðs hvort sem samið er við Ísland eða Sviss eða önnur ríki.“

Te drukkið í lítravís í samningum við Kína

Fleira kemur við sögu í pistli Bergdísar og þar á meðal hvernig vænlegast sé að bera sig að við viðræður um fríverslun við önnur ríki til þess að stuðla að því að árangur náist. Miklu skipti þannig að byggja upp traust á milli samningsaðila og þar sé mikilvægt að samningsaðilar beri virðingu fyrir hvorum öðrum. „Hurðaskellir á ekkert erindi á fundi þar sem samið er um mikilvæga hagsmuni lands og þjóðar.“ Lýsir hún ennfremur komu íslensku samningamannanna á fund í viðskiptaráðuneyti Kína í tengslum við viðræðurnar þar sem meðal annars segir:

„Einn vararáðherra kínverska viðskiptaráðuneytisins tekur á móti sendinefndinni og okkur er boðið til sætis í viðhafnarstofu og fært te. Þegar samið er í Kína er te drukkið í lítravís. Ráðherrann talar allnokkra stund um það að nokkuð átak sé að setjast aftur að samningaborðinu eftir svo langt hlé. Við færum kveðjur frá ríkisstjórn Íslands sem er full alvara með gerð fríverslunarsamnings við Kína. Formlegheitunum er lokið og við fundum með aðalsamningamanni Kína, alvarlegum og geðslegum manni sem talar mjög góða ensku, eins og aðrir samstarfsmenn hans. Við sammælumst um að semja fljótt og vel.“

Stundum kemur smæð Íslands sé vel

Samningar við önnur ríki eru samstarfsverkefni og að ferlinu koma sérfræðingar flestra ráðuneyta þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk sérfræðinga ýmissa stofnanna eins og frá Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Tollstjóra og Einkaleyfastofu,“ segir Bergdís ennfremur. Kosturinn við íslenskt stjórnkerfi geti stundum verið smæð þess.

„Stundum liggur mikið á og hafa þarf hraðar hendur. Kosturinn við íslenskt stjórnkerfi getur stundum verið smæð þess og hversu auðvelt er að ná í rétta menn og fá jafnvel ákvörðun ráðherra þegar þörf krefur.“

Pistilinn í heild má lesa á bloggvef utanríkisráðuneytisins.

Frá undirritun fríverslunarsamnings Íslands og Kína í Beijing í apríl …
Frá undirritun fríverslunarsamnings Íslands og Kína í Beijing í apríl 2013. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert