Vinakot er ætlað börnum og unglingum sem eiga við fjölþættan hegðunarvanda að stríða og þeim sem glíma við alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Stjórnendur Vinakots hafa í rúmlega ár leitað eftir þjónustusamningi við ríkið en án árangurs.
Afleiðingin er sú að úrræðið er vannýtt því allur kostnaður við vistun barna þar lendir á sveitarfélögunum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Þær Aðalheiður Þóra Bragadóttir og Jóhanna M. Fleckenstein segja tugi foreldra hafa haft samband og viljað koma börnum sínum að í Vinakoti til búsetu til skamms eða langs tíma.
Þær vita af fleiri foreldrum í sömu stöðu. Í langflestum tilvikum hafi ósk foreldranna strandað á kostnaði. Þar sem enginn þjónustusamningur hafi verið gerður beri sveitarfélögin allan kostnað vegna Vinakots. Ríki og sveitarfélög skipti á hinn bóginn kostnaði á milli sín vegna annarra vist- og meðferðarheimila.