Fóru í greni, fjóra daga í röð

Víða í Reykjavík eru yfiref hús. Stundum verða þau að …
Víða í Reykjavík eru yfiref hús. Stundum verða þau að fíkniefnagrenjum.

Í Vinakoti er ekki starfrækt lokuð deild sökum fjárskorts og því koma upp strok þegar börnin sem þurfa að dvelja eru í fíkniefnaneyslu. „Það sem við höfum gert, ólíkt öðrum, er að við leitum,“ segir Aðalheiður Þóra Bragadóttir sem ásamt Jóhönnu M. Fleckenstein rekur Vinakot, heimilislegt úrræði fyrir börn og unglinga – sem býður upp á sérfræðiaðstoð fyrir börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir, eru með hegðunarerfiðleika og hafa jafnvel leiðst út í fíkniefnaneyslu.

Í vetur strauk frá Vinakoti ungur skjólstæðingur og fjóra daga í röð fóru starfsmenn til leitar í greni sem vitað var af í yfirgefnu húsnæði við Brautarholt í Reykjavík. „Í fyrsta skipti sem farið var þangað inn, á föstudegi, voru níu eða tíu unglingar þar inni, sá yngsti var 13 ára,“ segir Aðalheiður.

Næstu þrjá daga var farið inn aftur, tvisvar í fylgd með lögreglu. „Þarna voru bæði krakkar sem verið var að leita að og líka aðrir sem ekki var vitað um,“ segir hún.

Eigendur hússins voru upplýstir og viðeigandi ráðstafanir gerðar og málefnum ungmennanna komið í réttan farveg.

Aðalheiður og Jóhanna hafa rekið Vinakot frá því í desember 2012. Þær segja að ríflega tugur foreldra hafi hringt til að kanna hvort þær gætu tekið á móti börnunum þeirra. Þær viti um nokkra sem hafi lagt hart að viðkomandi barnaverndarnefnd að vista barnið í Vinakoti en án árangurs. Ástæðan sé kostnaðurinn, þótt stundum sé foreldrum sagt að Vinakot taki aðeins á móti allra erfiðustu tilfellunum. Svo sé alls ekki því Vinakot sé fyrir börn á öllum aldri og auðvitað sé best að fá börnin þangað sem fyrst, áður en hegðun þeirra fer úr böndunum, áður en fíkniefnaneysla byrjar og áður en börnin fara að skaða sig.

Vildi Vinakot frekar en Háholt

Morgunblaðið ræddi við móður 15 ára pilts sem glímir við ADHD og leiddist út í fíkniefnaneyslu. Hann hefur ítrekað strokið af heimilinu og er illviðráðanlegur. Hann hefur hins vegar ekki verið tekinn fyrir afbrot. Af þeim sökum taldi hún ekki að vistun í Háholti, meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu í Skagafirði, myndi henta honum, enda eru þar m.a. vistuð ungmenni sem hafa hlotið fangelsisdóma.

Hún vildi hins vegar að drengurinn yrði vistaður í Vinakoti, enda fengi hann þar alla þá sérfræðiaðstoð sem hann þyrfti og væri auk þess á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún ætti auðvelt með að heimsækja hann. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hennar hálfu, kvartanir til bæjarins, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytisins varð félagsþjónustunni í sveitarfélaginu, Kópavogi, ekki haggað. Pilturinn skyldi vistaður í Háholti – ekki Vinakoti. Í skriflegum svörum hafi þó aldrei verið talað um að það væri vegna þess að Vinakot kostaði meira.

Hún segir að á endanum hafi hún ekki getað annað en fallist á vistina í Háholti enda hefði verið nauðsynlegt að koma drengnum í meðferð.

Í rökstuðningi Kópavogsbæjar fyrir synjuninni segir m.a. að Vinakot sé fyrir börn með flókinn vanda og sem þyrftu sólarhringsúrræði. Bregðast þyrfti við fíkniefnavanda piltsins strax, pláss væri laust í Háholti og það væri samhljóma álit meðferðaraðila að Háholt væri það úrræði sem hentaði best.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert