Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar í markaðsmisnotkunarmáli tengdu Kauþingi segir að það dugi ekki að segja ákæruvaldinu að sum mál séu svo flókin að þeim verði ekki lýst nema með heildrænum hætti. Það á ekki að fara á milli mála hverjar sakargiftirnar eru.
Hann vísar í Baugsmálin, þar sem segir að ákærði eigi að geta áttað sig á sakargiftunum af ákæru. „Ég held því fram að þessi regla sé enn í fullu gildi, þó svo að ýmsir dómar sem fallið hafa í síðari tíð hafi gefið einhvern afslátt af þessari reglu.“
„Samkvæmt heimfærslu til refsiákvæða í ákærunni er skjólstæðingur minn ákærður sem aðalmaður. Það er ekki hægt að verjast sakargiftum um þá háttsemi sem sakborningum er gefin að sök, því þá háttsemi er ekki að finna í ákærunni.“
Hann segir að hvergi í ákærunni sé að finna lýsingu á því hvernig háttsemi sakborninganna hefði átt að vera, og Gestur segir að í lögunum megi ekki sjá hvaða háttsemi sé eðlileg við þessar aðstæður.
Hann segir hér hafa verið færðar fram þungar og alvarlegar ásakanir, sem varða grundvöll réttarríkisins, og tekur undir með verjanda Bjarka Diego, um að hvort mál sem hefur verið stofnað til með órækum sönnunargögnum hafi verið rannsakað þannig að það hafi verið brot gegn grundvallarreglum réttarríkisins. „Sú staða er uppi í þessu máli.“
Björn Þorvaldsson, sækjandi í málinu fyrir hönd sérstaks saksóknara, telur að verjendur ákærðu fari um ýmislegt með rangt mál. Símtöl sem þeir segja að hafi ranglega verið tekin upp hafi ekki snúið að lögfræðiráðgjöf, heldur verið spjall milli vina.
Ekki hafi verið hlustað á síma í númerum sem ekki hafi verið tilgreind, lagaákvæðið nái til allra símtækja sem ákærði hafi til umráða. Vinnusími, hvort sem ákærði er lögfræðingur eða gegni öðrum störfum, skipti ekki máli.
Öll símtöl Bjarka Diego voru tekin upp, en ekki var hlustað á þau öll. Þeim hefur nú verið eytt og þau ekki lögð fram í málinu eða byggt á þeim.
Hann bendir á að margar af þeim málsástæðum sem verjendur hafi teflt fram snúi að efni málsins en ekki formi þess, og beri að taka til skoðunar við aðalmeðferð. Þau leiði hins vegar ekki til frávísunar.
Krafan um skýrleika ákæru segir Björn að snúi að ákæru í heild sinni. Í stórri og flókinni ákæru er alltaf hægt að taka út einstaka orð og segja að þær séu óskýrar. „Eins og gert var hér í dag,“ segir Björn.
Jóhannesi Bjarna Björnssyni, verjanda Ingólfs Helgasonar, fannst í andsvararæðu sinni að málflutningsræða ákæruvaldsins bæri merki um uppgjöf. „Það komu eiginlega ekki fram nein svör,“ segir Jóhannes, en við það tilefni skýtur Arngrímur Ísberg, héraðsdómari inn í mál verjandans: „Fer þetta þá ekki að verða búið hjá okkur?“ og brosir.
Jóhannes ítrekar það sem hann sagði í morgun um að íslensk lög gildi ekki um viðskipti í kauphöllinni í Svíþjóð. Hann bendir á að saksóknari hafi í raun bara sagt „lesið ákæruna, þetta stendur allt þar“. Því er Jóhannes Bjarni alls ekki sammála.