Unglingspiltur sæti öryggisgæslu vegna manndrápstilraunar

mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær unglingspilt til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun fyrir tilraunir til manndráps.

Ríkissaksóknari ákærði piltinn í júlí í fyrra fyrir að hafa reynt að svipta 9 ára stúlku lífi 27. apríl í fyrra í Hafnarfirði. 

Í ágúst í fyrra var síðan önnur ákæra, sem var gefin út í sama mánuði, sameinuð þessu máli. En pilturinn var jafnframt ákærður fyrir tilraun til manndráps að kvöldi 26. mars 2013, en þá braust hann inn á heimili konu og fjölskyldu hennar í Hafnarfirði vopnaður hnífi í því skyni að ráða konunni bana. 

Hefur átt við langvarandi geðrænan vanda að etja

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að í gögnum málsins og framburði geðlækna og sálfræðinga fyrir dómi eigi pilturinn við djúpstæðan og langvarandi, geðrænan vanda að etja. Þá segir, að það sé álitamál hvort hann sé sakhæfur, en það sé afdráttarlaust skilyrði refsiábyrgðar.

Geðlæknir, sem kom fyrir dóminn sem vitni, taldi að það væri á mörkunum að  skilyrði 15. gr. almennra hegningarlaga ættu við um piltinn en ákvæði 16. gr. sömu laga ætti hins vegar við um hann. Vitnið taldi að pilturinn hafi verið algjörlega klár á því sem hann var að gera á verknaðarstundu, hann hafi verið búinn að skipuleggja verknaðinn og vitað muninn á réttu og röngu.

Ákærði lýsti því við skýrslutöku hjá lögreglu 29. apríl 2013 að hann hafi verið búinn að hugsa þetta um tíma, hann hafi verið búinn að fela hníf sem hann ætlaði að nota til verksins og hann útbjó grímu fyrir andlit sitt. Þá kvaðst ákærði hafa hikað þegar hann sá stúlkurnar að leik í fjörunni og verið tvístígandi með það hvort hann ætti að framkvæma verkið, en svo hafi hann tekið ákvörðun um að láta verða af því og læðst að þeim. Þegar ákærði réðst svo á brotaþola var atlaga hans ofsafengin,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Þá segir, að pilturinn hafi vitað að það sem hann hafi verið að fara að gera hafi verið rangt og hann lýsti iðrun yfir því sem hann gerði.

Þá kom fram fyrir dómi hjá öðru vitni, sem er sálfræðingur og var dómkvaddur sem matsmaður, að pilturinn hefði haft einhvern skilning á því að hann hafi verið að gera rangt.

Telja að pilturinn sé hættulegur

„Að öllu þessu virtu er að mati dómsins varhugavert að slá því föstu að ákærði hafi verið „alls ófær“ um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn, eins og áskilið er í 15. gr. almennra hegningarlaga. Dómurinn telur hins vegar vafalaust að ákvæði 16. gr. sömu laga eigi við um ákærða. Ákærði hefur verið greindur með ódæmigerða einhverfu og samkvæmt prófum sem M sálfræðingur lagði fyrir hann er hann með greindarvísitölu á bilinu 57. Fyrir utan greindarskerðinguna glímir ákærði við fleiri erfiðleika, eins og t.d. þráhyggju, athyglisbrest, ofvirkni o.fl. Lýsti vitnið M því fyrir dómi að þroskalega séð væri ákærði eins og átta eða níu ára gamalt barn, jafnvel yngra. Það sama kom fram í vitnisburði O og P geðlæknis. Eru vitnin L, O og P sammála um að refsing geti ekki borið árangur og að hún gæti verið skaðleg. Þá eru vitnin á einu máli um að ákærði sé hættulegur og að hann þurfi örugga gæslu. Tekur dómurinn undir þetta,“ segir ennfremur í dómi héraðsdóms. 

Auk þess að sæta öryggisgæslu er piltinum gert að greiða tvær milljónir króna í skaðabætur og 2.045.000 krónur vegna vottorða og matsgerða.

Loks skal hann greiða helming sakarkostnaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert