Jónína dæmd í 30 daga fangelsi

Jónína Benediktsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Jónína Benediktsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt athafnakonuna Jónínu Benediktsdóttur í 30 daga fangelsi og svipt hana ökurétti ævilangt. Í dóminum yfir Jónínu segir að ölvunarakstursbrot hennar sé ítrekað öðru sinni.

Jónína var ákærð fyrir að hafa þriðjudaginn 18. júní 2013 ekið bifreið undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,50‰), úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll við Þorragötu í Reykjavík uns bifreiðinni var ekið utan í járngrind við enda bifreiðastæðisins.

Hún neitaði sök og hafnaði því að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bifreiðinni.

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður hennar um atvik málsins hafi ekki verið stöðugur að öllu leyti. Þannig hafi hún borið við yfirheyrslu hjá lögreglu að bifreiðin hefði rekist utan í járngrindina þegar hún ók inn í bifreiðastæðið. Hún hefði eftir þetta farið inn í flugstöðina, keypt þar áfengi og drukkið eitthvað af því þar inni. Við aðalmeðferð málsins kvað hún hins vegar það hafa rifjast upp fyrir sér að hún hefði ekið á járngrindina eftir að hún kom út úr flugstöðinni og hún kannaðist ekki við að hafa neytt áfengis þar inni.

Þá segir að lýsingar hennar á áfengisneyslu í umrætt sinn séu að verulegu leyti í ósamræmi við framburð vitna og niðurstöður alkóhólmælingar í blóðsýnum. „Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir frásögn ákærðu um að hún hafi byrjað að neyta áfengis eftir að hún lét af akstri bifreiðarinnar ótrúverðug og verður hún ekki lögð til grundvallar í málinu. Þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis er hún ók bifreiðinni úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll.“

Jónínu var þá gert að greiða 188 þúsund krónur í málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns og 37 þúsund króna þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi. Einnig var henni gert að greiða 42.934 krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert