Samkomulag liggur fyrir á milli Umhverfisstofnunar og umboðsmanns flutningaskipsins Just Mariiam sem liggur í Hafnarfjarðarhöfn. Höfð voru afskipti af skipinu á dögunum þar sem talið var að skipverjar væru að safna brotajárni sem spilliefni væru í hér á landi án tilskilins spilliefnaleyfis. Var skipið í kjölfarið kyrrsett í höfninni af tollyfirvöldum að beiðni Umhverfisstofnunar auk þess sem málið var kært til lögreglu.
Samkomulagið felur í sér að brotajárnið sem safnað hafði verið í skipið og á hafnarbakkann verði hreinsað af Efnamóttökunni hf. Þar með þarf útgerð skipsins ekki spilliefnaleyfi og hefur Umhverfisstofnun afturkallað beiðni sína til tollyfirvalda. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er skipinu þar með frjálst að yfirgefa landið þegar vinnu við hreinsun brotajárnsins hefur verið lokið. Héðan er ferðinni heitið til borgarinnar Trípólí í Líbanon.