Fríverslun við Kína samþykkt

Þingsályktunartillaga um að veita ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda fríverslunarsamninginn við Kína sem undirritaður var í apríl síðastliðnum var samþykkt á Alþingi í dag með 56 atkvæðum gegn 2. Þrír greiddu ekki atkvæði.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagnaði því fyrir atkvæðagreiðsluna að það sæi fyrir lok málsins sem hafist hefði árið 2006. „Ég hef þá trú að samningurinn skapi mikil viðskiptatækifæri og tækifæri á því að efla samstarf okkar við Kína á öðrum sviðum.“ Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði samninginn gríðarlega mikilvægan og að margar þjóðir vildu gjarnan ná slíkum samningi. Verið væri að opna á markaði sem myndu vaxa mest á næstu áratugum. Hvatti hann íslenska framleiðendur til þess að fullnýta þau tækifæri sem samningurinn veitti.

Píratar gagnrýndu hins vegar fríverslunarsamninginn á þeim forsendum að kínversk stjórnvöld virtu ekki mannréttindi. Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn flokksins, voru þau einu sem greiddu atkvæði gegn samþykkt þingsályktunartillögunnar. Þriðji þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, sat hins vegar hjá við atkvæðagreiðsluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka