„Við önnum ekki nærri því öllu“

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þjónar fötluðum börnum og ungmennum og …
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þjónar fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. mbl.is/Kristinn

Börn á grunnskólaaldri geta þurft að bíða í yfir tólf mánuði eftir að komast að hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, en þó er reynt að sinna yngri börnum fyrr.

Tilvísunum er forgangsraðað á grundvelli frumgreiningar. „En við önnum ekki nærri því öllu sem er leitað til okkar með,“ segir Stefán J. Hreiðarsson, barnalæknir og forstöðumaður stöðvarinnar.

Um leið og frumgreining liggi fyrir eigi að byrja að veita börnum aðstoð í samræmi við hana, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.

Í nóvember kom út skýrsla nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir þar sem mælt er með að þjónusta við þennan hóp barna falli undir þjónustukerfi fatlaðra. Þá taldi nefndin m.a. nauðsynlegt að ríkið kæmi meira að því að leysa vanda þessara barna.

Skýrslan er komin í farveg, eins og það heitir.

Henni hefur verið vísað til samráðsnefndar um málefni fatlaðra sem er m.a. ætlað að vera velferðarráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðs fólks og hafa umsjón með yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Soffía Gísladóttir, formaður samráðsnefndarinnar, segir að skýrslan hafi þegar verið rædd í nefndinni. Skýrslan sé góð, enda gerð af helstu sérfræðingum á þessu sviði, en leggja þurfi í ýmsa vinnu til viðbótar, s.s. afla frekari upplýsinga um stærð hópsins og kostnað við þjónustu við hann. Hún vonast til að samráðsnefndin geti lokið umfjöllun um skýrsluna í febrúar. Þá verði ákveðið hvernig frekari vinnu vegna hennar verði háttað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert