Galið að gera ráð fyrir umboðssvikum

Sigurjón Þ. Árnason
Sigurjón Þ. Árnason Sverrir Vilhelmsson

Sérstakur saksóknari hefur ákært Sigurjón Þ. Árnason og Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi stjórnendur Landsbankans, fyrir umboðssvik.

Sigurjón segir við mbl.is að ákæran lúti að gerningum, sem vörðuðu fjármögnun og varnir kaupréttarsamninga starfsmanna bankans, og bendir á að því kerfi hafi í grunninn verið komið á árið 2000.

„Aðalhöfundur þessa kerfis er Gunnar Andersen, sem síðar varð forstjóri Fjármálaeftirlitsins,“ segir Sigurjón. 

„Sú fjármögnun sem á sér stað í upphafi vegna kaupréttarsamninganna átti sér í stað alfarið innan Landsbankans í átta félögum. Ég kem síðan að því að flytja þessi félög úr fjármögnun hjá Landsbankanum í fjármögnun annarsstaðar, þannig að Landsbankinn væri ekki að lána til þeirra sjálfur,“ segir Sigurjón.

Sex þeirra hafi farið til Straums og Glitnis og voru án ábyrgðar Landsbankans, en tvö fóru til Kaupþings. Hann segir Kaupþing hafa krafist sjálfsskuldarábyrgðar Landsbankans fyrir þeim, sem Landsbankinn hafi veitt. 

„Fyrir það að hafa gert þetta, veitt þessa sjálfsskuldarábyrgð, er ákært,“ segir Sigurjón. „Hefðum við haldið gamla fyrirkomulaginu, þannig að þetta væri allt fjármagnað hjá Landsbankanum, þá get ég ekki séð annað en að áhætta bankans hefði verið meiri ef eitthvað er.“

Hann segir að sérstakur saksóknari hafi í upphafi rannsakað þessa gerninga sem markaðsmisnotkun, sem þetta hafi ekki verið. „Ég var í upphafi yfirheyrður á þeim grundvelli. Síðan, ári síðar, var þetta rannsakað þannig að það hafi ekki verið rétt staðið að bókhaldinu í kringum þetta,“ segir Sigurjón.

Hann bendir á að endurskoðandi hafi verið kallaður til við þá rannsókn, og í ljós komið að þær reglur sem talið var að hefðu verið brotnar hafi á þeim tíma ekki verið í gildi.

„Svo endar þetta á ákæru fyrir umboðssvik. Megnið af rannsókninni sneri alls ekki að umboðssvikum. Það er í mínum huga galið að gera ráð fyrir að þetta séu umboðssvik. Ef þetta voru umboðssvik, þá tel ég að það sé mjög erfitt að taka viðskiptalegar ákvarðanir í banka án þess að vera í stórkostlegri hættu að vera sakaður um umboðssvik eftirá, því þessar ákvarðanir eru klárlega teknar með hagsmuni bankans að leiðarljósi,“ segir Sigurjón.

Frétt mbl.is: Sigurjón og Elín ákærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka