Auglýst eftir forstjóra Landspítalans

mbl.is/Eggert

Embætti forstjóra Landspítalans var í dag auglýst laust til umsóknar en Björn Zoëga lét af störfum sem forstjóri í september síðastliðnum og hefur Páll Matthíasson gegnt embættinu tímabundið síðan í byrjun október. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar næstkomandi en heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna til fimm ára í senn.

„Forstjóri ber ábyrgð á að Landspítali starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem heilbrigðisráðherra setur. Forstjóri ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem spítalinn veitir og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Forstjóri ræður aðra starfsmenn spítalans. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist honum í starfi og búa yfir reynslu af rekstri og stjórnun. Gerð er krafa um mikla samskipta- og leiðtogahæfileika,“ segir meðal annars í auglýsingunni.

Ennfremur kemur fram að hæfni umsækjenda verði metin af þriggja manna nefnd sem skipuð verði af heilbrigðisráðherra í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra skipi í stöðuna til fimm ára í senn frá 1. apríl 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert