Sérstakur saksóknari, verjendur og dómari féllust við fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær á að aðalmeðferð í BK-44 málinu svonefnda fari fram fyrstu vikuna í júní. Í málinu eru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga.
Mennirnir eru Birkir Kristinsson, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.
Ákæran kemur til vegna 3,8 milljarða lánveitingu bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og eru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Bankinn keypti svo bréfin aftur af Glitni á árinu 2008 og segir sérstakur saksóknari að það hafi verið á yfirverði.
Birkir er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum en til vara hylmingu og peningaþvætti. Hann hagnaðist um 86 milljónir á viðskiptunum, að því segir í ákærunni.
Allir neita mennirnir sök. Ein frávísunarkrafa kom fram í málinu. Birkir taldi að vísa ætti máli á hendur sér frá vegna þess að réttarstöðu hans var breytt úr sakborningi í vitni í desember 2011 og síðan aftur í sakborning í júní 2012. Með því að færa réttarstöðuna úr sakborningi í vitni væri verið að fella málið á hendur honum niður og ekki hægt að taka það aftur upp nema ný gögn kæmu fram.
Dómari hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að lögregla hafi svigrúm við mat í þessum efnum og því hafi verið heimilt að taka rannsókn málsins upp að nýju.
Við fyrirtökuna í gær skiluðu verjendur greinargerðum og ákveðið var að stefna á aðalmeðferð 2.-6. júní næstkomandi. Á milli 16-20 vitni verða leidd fyrir dóminn til að gefa skýrslu og munu skýrslutökur líklega taka þrjá daga.
Þá var ákveðið að hafa sama hátt á og í Exeter-málinu, þ.e. að bjóða vitnum sem verða ekki á landinu á meðan aðalmeðferðin fer fram að gefa skýrslu fyrr þannig að aðalmeðferðin klárist áreiðanlega á tilsettum tíma.