Leki í DV alvarlegt trúnaðarbrot

Kópavogur
Kópavogur Sigurður Bogi Sævarsson

„Nú ber svo við að nöfnum einstakra aðila sem rituðu undir fyrir hina mætu konu Margréti Friðriksdóttur er lekið í DV augljóslega í þeim tilgangi að ala á óeiningu innan Sjálfstæðisflokksins og skaða framboð Margrétar. Hér er um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða sem formaður kjörnefndar, Bragi Michaelson, er ábyrgur fyrir enda tók hann persónulega við framboðsbréfum.“ Þetta segir í yfirlýsingu stuðningsmanna Margrétar Friðriksdóttur.

Stuðningsmennirnir birtu yfirlýsingu sína í Morgunblaðinu í gær. Í henni segir að vegna umfjöllunar DV um meðmælendur vegna framboðs Margrétar Friðriksdóttur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi sjái þau sig knúin til koma fram, þar sem nöfnum þeirra hafi verið lekið úr trúnaðarskjölum kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

„Þetta er í annað sinn á fáum dögum sem hann [Bragi] gerir sig sekan um alvarlegt trúnaðarbrot. Áður lét hann hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann styddi Ármann Kr. Ólafsson og teldi að flokksmenn ættu að flykkja sér bak við hann, auk þess sem hann nafngreindi og rægði þrjá frambjóðendur. Slíkt framferði formanns kjörnefndar er líklega einsdæmi í sögu Sjálfstæðisflokksins. Gera verður þá kröfu til forystumanna Sjálfstæðisflokksins að tekið verði snarlega á þessu máli af festu. Verði svona vinnubrögð liðin eru það skilaboð um að í Sjálfstæðisflokknum helgi tilgangurinn meðalið. Það er sannarlega ekki hugsjón meginþorra sjálfstæðisfólks.

Sjálfstæðisfólk í Kópavogi þarf enn og aftur að skammast sín fyrir þau vinnubrögð sem ákveðinn hópur í flokknum viðhefur. Þetta gengur ekki lengur, breytinga er þörf.“

Undir yfirlýsinguna skrifa Hreinn Jónasson, Brynhildur Gunnarsdóttir, Guðjón Gísli Guðmundsson, Júlíus Hafstein og Aðalsteinn Jónsson.

Margrét Friðriksdóttir
Margrét Friðriksdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert