Áfram hvasst í kvöld

Áfram verður hvasst í kvöld en vindinn lægir um hádegisbilið …
Áfram verður hvasst í kvöld en vindinn lægir um hádegisbilið á morgun. Kristinn Ingvarsson

Áfram verður hvasst í kvöld og fram á nótt, en vindinn lægir töluvert um hádegisbilið á morgun, samkvæmt upplýsingum frá Óla Þór Árnasyni, veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands. Hvassast verður allra syðst á landinu sem og á norðaustanverðu landinu.

Óveðrið undir Eyjafjöllum og í Öræfum nær hámarki nú síðdegis með vindhviðum allt að 40-45 m/s. Vindurinn verður austlægari þegar líða fer á kvöldið og þá á einnig eftir að hlýna. Í stað slyddu og snjókomu kemur rigning, en fyrir norðan verður hinsvegar áfram snjókoma.

Óli Þór segir að úrkoman verði þó ekki mjög mikil á morgun, nema á Suðausturlandi og Austfjörðum. Þar verði viðvarandi úrkoma á morgun í formi rigningar. „Aðrir landshlutar verða nokkuð þurrir. Um miðjan dag á morgun verður komið hið sæmilegasta veður víðast hvar,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Stormur og hríð á Hellisheiði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert