Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um áframhaldandi leit á Faxaflóa að bát sem sendi neyðarkall um miðjan dag í gær. Ekki hefur verið tilkynnt um að fólks sé saknað og ekki er útilokað að um sé að ræða gabb.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er nú verið að vinna úr gögnum eftir leitina í gær, sem var afar umfangsmikil, en leitað var frá Reykjanestá að vestasta hluta Snæfellsness. Tvær þyrlur Gæslunnar, auk tveggja finnskra björgunarþyrlna, sem hér voru við æfingar, leituðu bátsins, auk tíu hraðbjörgunarbáta og fimm björgunarskipa. Um 190 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út, auk lögreglu.
Ekki hefur verið ákveðið um frekari leit, en líklega munu þyrlur Gæslunnar fara á loft núna fyrir hádegi. Ekki liggur fyrir hvort finnsku þyrlurnar verða þeim til liðsinnis. Útkallsbeiðni hefur ekki borist til Landsbjargar og þar hefur því engin ákvörðun verið tekin um frekari leit í dag.
Ekki er vitað til þess að neinna sé saknað og engan bát vantaði í gær samkvæmt sjálfvirku tilkynningaskyldunni. Spurð um hvort þetta gæti mögulega verið gabb segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landbjargar, ekki hægt að útiloka það. „Auðvitað vonar maður að enginn sé í sjávarháska. En á sama tíma vill maður varla trúa að einhverjum þyki svona lagað fyndið.“
Kallið barst rétt fyrir klukkan þrjú í gær og heyrðist í björgunarbát Björgunarfélags Akraness, Margréti, sem staddur var rétt fyrir utan Akranes og hjá Landhelgisgæslunni. Spurð um hvort hægt sé að rekja neyðarkallið segir Ólöf svo ekki vera. „Það er hægt að gera fjarskiptaprófanir og út frá þeim er hægt að reikna gróft út frá hvaða svæði kallað var, en það er víðfeðmt svæði og ekki hægt að rekja neyðarkallið til einstakra aðila.“