„Það er mjög erfitt að rekja neyðarkall sem er svona stutt,“ segir Þór Bínó Friðriksson, formaður Björgunarfélags Akraness. Björgunarbáturinn Margrét Guðbrandsdóttir fékk neyðarkall á alþjóðlega neyðarrás skipa um þrjúleytið í gær, sama kall og Landhelgisgæslan.
„Margrét var í æfingaferð þegar kallið barst, en ég veit ekki til þess að aðrir en hún og Gæslan hafi fengið neyðarkallið,“ segir hann. „Þegar sendingin varir í 20 sekúndur eins og þessi er erfitt að átta sig á því hvaðan hún kom. Það er vitað á hvaða sendum þetta kom inn og hefur verið unnið út frá því,“ segir Þór.
Hann segir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt í mikla rannsóknarvinnu til að reyna að finna út hvaðan kallið kom. „Það er ekkert komið út úr þessu sem hönd á festir,“ segir hann.
Tveir bátar, þrír jeppar og á bilinu 25 til 30 manns á vegum björgunarfélagsins tóku þátt í leitinni, en alls tóku fjórar þyrlur, fimm björgunarskipskip, tíu minni bátar, að minnsta kosti tveir sjókettir, tugir jeppa og 190 manns þátt í leitinni.
Kostnaður björgunarfélags Akraness í eldsneyti og þess háttar hleypur á hundruðum þúsunda. Samkvæmt skráningarkerfum er einskis saknað, þannig að ekki er útilokað að um gabb hafi verið að ræða. „Á þessu stigi vonar maður eiginlega að þetta hafi verið gabb og að enginn liggi einhvers staðar í fjörunni. Það væri samt mjög alvarlegt ef um gabb væri að ræða,“ segir Þór.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar hvort tilkynningin hafi ekki verið sönn, og þá hver kunni að standa á bak við það, en málið er litið alvarlegum augum. Þeir sem geta gefið vísbendingar um hver kunni að hafa sent skilaboðin eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.