Þetta eru einfaldlega sannar hetjur

Anna Kristjánsdóttir vélstjóri.
Anna Kristjánsdóttir vélstjóri. hag / Haraldur Guðjónsson

„Það er ekki stætt á dekkinu og fólkið skorðar sig niður með böndum til að kastast ekki á næsta bita og marblettunum fjölgar eftir því sem líður á leitina.“ Svona lýsir Anna Kristjánsdóttir vélstjóri aðstæðum við leit á sjó, en hún tók þátt í leit á Faxaflóa í gær þar sem leitað var að bát sem sendi neyðarkall um miðjan dag í gær.

Búist er við því að leitinni verði haldið áfram nú er líða tekur á morguninn, eftir að birtir. Í gær var leitað á fjórum þyrlum, auk tíu björgunarbáta og fimm björgunarskipa. Alls voru um 190 björgunarsveitarmenn kallaðir út til leitar.

„Þetta fólk sem leggur alla þessa vinnu á sig í sjálfboðavinnu á alla mína aðdáun. Það mætir aftur og aftur og gjarnan þegar aðstæður eru sem verstar í von um að geta bjargað mannslífum,“ skrifar Anna á bloggsíðu sinni. „Jafnvel þótt björgunin takist verður þakklætið oft lítið, kannski sneið af flatböku eftir að verkefninu lýkur, stundum ekkert.“

Ískaldur sjórinn pusar yfir fólkið

„Þarna er farið á sjó í leiðindaveðri í leit að horfnum bát. Björgunarskipið ýmist veltur eins og korktappi eða lemur í ölduna (stampar) eftir því hvernig keyrt er í ölduna. Menn (og konur) standa útkíkk og reyna að greina hvort eitthvað sé í yfirborðinu á milli öldutoppanna og ískaldur sjórinn pusar reglulega yfir fólkið á útkíkkinu. Það er ekki stætt á dekkinu og fólkið skorðar sig niður með böndum til að kastast ekki á næsta bita og marblettunum fjölgar eftir því sem líður á leitina. Auk okkar báts taka aðrir svipaðir bátar þátt í leitinni, auk minni báta allt niður í slöngubáta og þyrlur sveima yfir í von um að sjá eitthvað. Á slöngubátunum er ástandið enn verra en hjá okkur.  Þar er enginn möguleiki á að komast í skjól fyrr en komið er til hafnar að nýju,“ skrifar Anna.

Alltaf tilbúnir til að fara út

Hún bendir á að þeir sem taki þátt í leit á sjó séu síður en svo allir vanir sjómenn. Engu að síður séu þessir sömu sjálfboðaliðar fyrstir á staðinn og tilbúnir til að fara út að nýju nokkrum klukkustundum síðar.

„Á sunnudag voru t.d. tveir piltar sem voru með í erfiðu verkefni á síðastliðnu sumri og maður velti fyrir sér eftir þá ferð hvort þeir hefðu ekki fengið nóg af sjómennskunni. Í gær voru þeir komnir aftur einu sinni enn eins og svo oft í millitíðinni,“ skrifar Anna. „Ekki má heldur gleyma því að andinn í björgunarsveitunum er mjög góður og fordómar ekki leyfilegir í hópnum. Þetta eru einfaldlega sannar hetjur.“

Frétt mbl.is: Þyrla til leitar á Faxaflóa í birtingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert