Krefst þyngri refsingar yfir Lárusi

Lárus Welding þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lárus Welding þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Vararíkissaksóknari fór fram á það fyrir Hæstarétti í dag að refsing yfir Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, verði þyngd vegna lánveitingar til Milestone 8. febrúar 2008. Hann sagðist ósammála mati héraðsdóms um að brot þeirra séu minniháttar.

Þeir Lárus og Guðmundur voru ákærðir fyrir að hafa ákveðið og samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone 8. febrúar 2008.

Lánið til Milestone var veitt frá 8. febrúar til 11. febrúar 2008 en þá var það greitt upp með því að bankinn lánaði upphæðina til félagsins Vafnings og Vafningur greiddi bankanum upphæðina til baka.

Með lánveitingunni til Milestone hafi þeir misnotað aðstöðu sína og gerst sekir um umboðssvik. Sérstakur saksóknari fór fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi og fimm ára fangelsi yfir Guðmundi. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hins vegar hæfilega refsingu níu mánaða fangelsi og að sex þeirra séu bundnir skilorði.

Vanhæfið verður ekki augljósara

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti í dag. Hann fór fram á það að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu verði staðfest en refsingin þyngd.

Verjendur Lárusar og Guðmundar gerðu hins vegar þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Fyrst var tekist á um frávísunarkröfuna. Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, flutti þann þátt málsins fyrir hönd verjendanna tveggja. Hann sagði kjarna málsins, að undirbúningur málshöfðunar hefði farið fram með lögreglurannsókn. Sú rannsókn hefði verið borin uppi af tveimur lögreglufulltrúum. Samhliða rannsókninni hafi þeir tekið að sér aukavinnu fyrir þrotabú Milestone en fyrir þrotabúið skipti öllu máli að sýnt yrði fram á ólögmæti nokkurra gjörninga sem snertu Milestone, þar á meðal umrædda lánveitingu.

Óttar benti á að lögreglufulltrúarnir hefðu fengið 30 milljónir króna frá þrotabúinu fyrir um tveggja mánaða vinnu, sem séu miklu hærri upphæð en hægt sé að ætla að fáist fyrir aukavinnu samhliða fullu starfi.

Það sé því fyllilega ljóst að lögreglufulltrúarnir tveir voru vanhæfir við rannsókn málsins og um það sé vart deilt. Öll framkvæmd rannsóknarinnar og framsetning hennar beri vanhæfis þessara tveggja rannsakenda skýr merki.

Meðal annars sagði Óttar að skiptastjóranum hefði varla dottið til hugar að ganga frá samningi við lögreglufulltrúana eða samþykkja þessa upphæð ef hann hefði fengið þá hugmynd að ólíklegt væri að ákæra yrði gefin út. „Vanhæfið verður ekki mikið augljósara.“

Hann sagði ótvírætt að lögreglufulltrúarnir höfðu verulegra persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta á útgáfu ákæru. Krafan um frávísun sé byggð á því að vanhæfir einstaklingar hafi rannsakað málið. Rannsóknin hafi verið óforsvaranleg og beinlínis andstæð lögum. Hún hafi verið ólögmæt. Ekki sé hægt að bæta úr slíkum annmörkum við meðferð máls hjá dómstólum.

Seldu bara vinnu sína

Helgi Magnús sagði umrædda aukavinnu lögreglufulltrúana ekki tengjast málinu þannig að máli skipti. Hann sagði skipta máli hvað fólst í störfum rannsakendanna. Hann vísaði til þess að málið hefði verið kært til ríkissaksóknara sem felldi það niður. Sakarefnið hafi verið brot gegn þagnarskyldu. Ekkert hafi legið fyrir um að þeir hefðu rangfært nokkuð í rannsókninni.

Hann sagði að grunsemdir hefðu verið um hvort þeir hefðu með skýrslu sem þeir seldu þrotabúi Milestone gefið upplýsingar og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni. Það eitt og sér hefði ekki leitt til vanhæfis þeirra, enda engin ástæða til að ætla að þeir hefðu verið með óhlutdræga sýn á rannsókn málsins.

Helgi sagði verjendur gera óþarflega mikið úr þessu og benti á að héraðsdómur hefði leyst úr þessu ágreiningsefni með úrskurði á fyrri stigum málsins. Hann sagði að rannsókn lögreglu felist í að safna saman gögnum og yfirheyra vitni um atvik máls. Rannsóknin sem slík byggi ekki á ályktunum rannsakenda heldur á gögnum sem verða til. Það sé verkefni ákæruvaldsins að fara yfir gögnin og meta hvort gefa eigi út ákæru og svo dómstóla að leggja mat á sönnunargögnin og hvort tilefni hafi verið til ákæru.

Þannig hafi aðeins verið um samantekt á upplýsingum að ræða sem þeir hafi selt þrotabúinu. Ekkert bendi til að þeir hafi lofað neinni niðurstöðu eða að vinna þeirra við rannsóknina hafi miðað að því að þóknast þrotabúi Milestone. Skýrslan sé aðeins unnin upp úr gögnum rannsóknarinnar og í henni séu ekki dregnar ályktanir. „Þeir höfðu enga hagsmuni af niðurstöðu málsins, þeir seldu bara vinnu sína.“

Fyrirmælin ekki frá þeim

Til vara krefjast verjendur að skjólstæðingar þeirra verði sýknaðir af öllum kröfum í málinu. Þeir fóru í stuttu máli yfir aðdraganda lánveitingarinnar. Þannig var að bandaríski bankinn Morgan Stanley gjaldfelldi lán félagsins Þáttar sem tengdist Milestone nánum böndum, þ.e. Milestone var í ábyrgð fyrir skuldir Þáttar og Morgan Stanley var með hlutabréf í Glitni að veði.

Greiða þurfti Morgan Stanley fyrir klukkan 15 föstudaginn 8. febrúar 2008. Að öðrum kosti hefði bankinn eignast hlutabréfin í Glitni. Hefðu afleiðingarnar verið afar slæmar bæði fyrir Glitni og ekki síður Milestone, en upplýst var um að félagið hefði að öllum líkindum farið við það í þrot.

Áhættunefnd Glitnis samþykkti að veita lán til Vafnings, nýs félags, sem stóð fyrir utan Milestone-samstæðuna, til að greiða Morgan Stanley. Þann 8. febrúar var lánið hins vegar ekki greitt til Vafnings heldur til Milestone í formi peningamarkaðsláns sem greiða átti að nýju mánudaginn 11. febrúar.

Eins og fyrir héraðsdómi byggja Lárus og Guðmundur á því að þann 8. febrúar hafi þeir aðeins samþykkt lánveitingu til Vafnings, sem var í samræmi við samþykkt áhættunefndar bankans nokkrum dögum áður. Fyrirmæli um að greiða Milestone út lán þann dag í stað Vafnings hafi ekki komið frá þeim.

Lykilskjal í málinu er svonefnt ádráttarskjal þar sem fyrirmælin eru rituð. Á skjalinu er að finna undirskriftir Lárusar og Guðmundar. Verjendur þeirra halda því fram að þeir hafi sett nöfn sín á blaðið áður en fyrirmælin voru sett þar inn og til að heimila útgreiðslu lánsins til Vafnings jafnvel þótt eitthvað hefði vantað upp á, s.s. skráningu trygginga.

Lárus og Guðmundur hafi síðan yfirgefið bankann og eftir það hafi eitthvað komið upp á sem varð til þess að skjalinu var breytt og lánið var veitt Milestone. Að öllum líkindum hafi það verið undirmenn þeirra sem samþykktu að sú leið var farin. Var það væntanlega vegna þess að það Vafning vantaði kennitölu eða að gleymst hafi að stofna það í kerfi bankans. Mikið stress hafi verið þennan dag og allt þurfti að ganga hratt fyrir sig og ganga upp til þess að Morgan Stanley fengi fjármunina.

Lánaformið breyttist á þrettán mínútum

Óttar sagði það mjög ólíklegt að svona hefði verið gengið frá málum ef Lárus og Guðmundur hefðu verið á staðnum. Ef það hefði verið ákveðið að lána Milestone yfir nóttu hefði einfaldlega verið útbúið hefðbundið peningamarkaðslán sem tæki enga stund. Engin ástæða hefði verið til þess að nota ádráttartilkynningu ef þeir hefðu verið þarna.

Þá sagði hann skjalið bera það með sér að þeir voru ekki á staðnum. Öðrum megin á skjalinu séu undirskriftir þeirra og segir að þeir séu samþykkir. Annars staðar á blaðinu sé svo undirritun forsvarsmanns Milestone og þá segi „fyrir hönd Milestone“. Ekkert samræmi sé því á blaðinu.

Öll gögn bendi til þess að hugmyndin um peningamarkaðslánið til Milestone hafi kviknað hjá öðrum starfsmönnum Glitnis. Engar vísbendingar sé hins vegar um að Lárus eða Guðmundur hafi komið þar nálægt. „Það sem átti að vera lán til Vafnings klukkan 14.50 var orðið að peningamarkaðsláni til Milestone þrettán mínútum síðar,“ sagði Óttar.

Hann sagði starfsmenn bankans enga ástæðu til að halda að það væri glæpur að greiða lánið til Milestone þegar þeir sáu að ekki var hægt að greiða það til Vafnings. Þeir hafi talið sig vera að vinna eftir fyrirmælum áhættunefndar. Að fara þessa leið hafi ekki aukið á útlánaáhættuna enda upphæðin sú sama og ljóst að ekkert gat gerst í málinu yfir helgina. Óumdeilt sé að lánið hafi verið greitt upp á mánudegi og að Glitnir hafi ekki orðið fyrir fjártjóni vegna lánsins til Milestone. „Mér finnst ekki til of mikils ætlast að ákæruvaldið útskýri hvað hefði þurft að gerast til að lánið fengist ekki endurgreitt.“

Þórður Bogason, verjandi Guðmundar, bætti því síðar við að hann sæi ekki hvernig það færi saman við mannréttindi Lárusar og Guðmundar að þeir verði sakfelldir í málinu. Ekkert í málinu bendi til að þeir hafi vitað eða hafi mátt vita hvað var í gangi á þessum tíma í bankanum.

Rétturinn líti til Exeter-málsins

Helgi Magnús sagði það ljóst að menn hafi verið að keppa við tímann eftir hádegi 8. febrúar 2008. Vafningur hafi hins vegar á þessum tíma ekki verið annað en skel og því virðist sem menn hafi lent í vandræðum með að veita félaginu lánið sem búið var að samþykkja. Því hafi verið ákveðið að lána Milestone, sem hafi verið óheimilt.

Hann sagði að sakborningar hefðu engar skýringar gefið á því hvers vegna þeir undirrituðu ádráttarskjalið, en það hefðu þeir ekki þurft að gera. Aðeins hafi verið um hefðbundið ádráttarskjal að ræða. Þeir höfðu hins vegar sem meðlimir í áhættunefnd umboð til að veita tveir saman lán, að því marki sem áhættunefndin hefur leyft, til viðskiptavina. Þarna hafi verið farið út fyrir þá heimild með því að lána til Milestone, enda hefði stjórn bankans þurft að samþykkja lánið. Þeir hefðu getað afgreitt lánið með löglegum hætti en fóru út fyrir umboð sitt.

Hvað varðar tjónshættuna vísaði Helgi Magnús í forsendur héraðsdóms. Þar kom fram að það yrði ekki metið sakborningum til refsileysis þótt hættan á greiðslufalli Milestone væri metin lítil. Hún hafi hins vegar greinilega verið fyrir hendi.

Helgi Magnús sagðist ósammála héraðsdómi um að brotið væri minniháttar. Þegar litið sé til upphæðarinnar sé ljóst að um meiriháttar brot sé að ræða. Þá sagði hann að varðandi ákvörðun refsingar ætti að líta til Exeter-málsins. Þar voru þyngstu dómar fjögur og hálft ár.

Gera má ráð fyrir því að Hæstiréttur kveði upp dóm sinn í næstu eða þarnæstu viku.

Lárus Welding, Óttar Pálsson og Þórður Bogason.
Lárus Welding, Óttar Pálsson og Þórður Bogason. Styrmir Kári
Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans.
Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans. Morgunblaðið/Styrmir Kári
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Morgunblaðið/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert