Staðan verður tekin í næstu viku

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. www.ki.is

Mjög þungt hljóð er í framhaldsskólakennurum eftir samstöðufundi sem víða voru haldnir í framhaldsskólum landsins í morgun. Formaður Félags framhaldsskólakennara segir að staðan verði metin á næstu dögum, líklega í lok næstu viku, og þá tekin ákvörðun um hvort boðað verði til aðgerða á borð við verkfall.

„Mikil gremja, reiði og vonbrigði með stöðuna í samningamálum og með þessa óbilgirni hjá ríkisvaldinu,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, um tóninn í þeim ályktunum sem kennarafélög einstakra skóla hafa sent frá sér í kjölfar fundahalda morgunsins.

Aðalheiður segir framhaldsskólakennara ítrekað hafa bent stjórnvöldum á slæma stöðu skólanna í mörg ár; bæði yfirvöldum menntamála og fjármála, Alþingi og einstökum þingmönnum. „Þetta hefur ekki hlotið neinn hljómgrunn. Við höfum lagt áherslu á það í mörg ár í hvað er að stefna.“

Í hvað stefnir? „Mjög erfiðar kjaraviðræður vegna þess að stjórnvöld hafa látið vandann safnast upp.“ Hefði verið hægt að koma í veg fyrir þá stöðu sem er komin upp núna? „Já, ef vilji hefði verið fyrir því hjá stjórnvöldum. En þá hefðu menn þurft að taka miklu fyrr við sér.“

Ekki jafn þungur tónn síðan um aldamót

Aðalheiður hefur verið í forystusveit framhaldsskólakennara undanfarin níu ár. Hún segir að fara þurfi aftur til ársins 2000 til að finna jafn þungan tón meðal kennara. „Þessi staða hefur verið að hlaðast upp undanfarin ár. Framhaldsskólakennarar fóru í mjög harðar aðgerðir veturinn 2000-2001, þeir fóru þá í átta vikna verkfall. Áður en þær aðgerðir brustu á var launabilið á milli framhaldsskólakennara og skyldra hópa margfalt stærra en það er nú, en vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er stærri, því ásigkomulag skólanna er verra núna en nokkru sinni vegna sparnaðar. Og það er ekki bara tilkomið vegna kreppunnar, sparnaðurinn var byrjaður löngu áður.“

Bil á milli orða og aðgerða

Hvers vegna lenda kjaraviðræður kennara oftar á þessari braut en kjaraviðræður annarra stétta? Að rætt sé um verkfall? „Það eru óboðlegt að þurfa að fara í harðan slag og erfiðar viðræður aftur og aftur. Ástæðan er hugsanlega sinnuleysi og andvaraleysi stjórnvalda gagnvart menntun í landinu. Það er stórkostleg bil á milli orða og aðgerða í menntamálum. Annars vegar er menntun hafin upp til skýjanna, en þegar gera á eitthvað í málunum kemur allt annað hljóð í strokkinn.“

Talað hefur verið um hugsanlegt verkfall framhaldsskólakennara. Er ekkert of snemmt að tala um verkfall á þessu stigi viðræðna? „Auðvitað er markmiðið hjá okkur að komast til botns í því hvort það sé vilji hjá ríkinu að ræða málin efnislega, en hingað til hafa ekki verið nein merki um það. Við munum leggja mat á stöðuna, líklega í næstu viku og taka þá ákvörðun um hugsanlegar aðgerðir.“ Ertu að tala um verkfall? „Ég get ekki sagt á þessari stundu hvert það mat verður, en það segir sig sjálft að það er ekki hægt að sitja mjög lengi yfir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert