Verjendur sakborninga í málum tengdum föllnu bönkunum eru áhyggjufullir vegna aðfinnslu dómara í Al-Thani-málinu svonefnda og hvaða áhrif hún hefur á störf þeirra og málarekstur annarra mála. Þeir vilja fá að vita hug annarra dómara um fordæmisgildið og helst dóm Hæstaréttar.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani-málinu sagði: „Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.“
Dómsformaður í Al-Thani-málinu var Símon Sigvaldason. Hann er einnig dómari í BK-44 málinu svonefnda en í því ákærði sérstakur saksóknari fjóra fyrrverandi starfsmenn Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga. Fyrirtaka var í málinu fyrir helgi og lagði verjandi Birkis fram bókun þar sem vikið var að samskiptum verjenda við vitni. Af því tilefni ítrekaði Símon það sem kemur fram í aðfinnslu í Al-Thani-málinu og sagði að ekki væri horfið frá athugasemdinni þegar kemur að samskiptum við vitni.
Fyrr í dag var svo fyrirtaka í máli sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi stjórnendum hjá Kaupþingi banka. Við dómþing bar sama mál á góma en dómari í því máli er Arngrímur Ísberg. Hann sagði útilokað að dómari gæti gefið eitthvað upp fyrirfram varðandi samskipti verjenda við vitni. Til þess að íhuga hvort með samskiptum við vitni hafi verið farið á svig við lagafyrirmæli þurfi eitthvert tilefni í skýrslu vitnisins fyrir dómi.
Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, sagði að aðfinnslan í Al-Thani-málinu þýði efnislega að vitnin voru ekki talin trúverðug. Ef hlustað hefði verið á framburð þeirra hefði hins vegar ekki komið til sakfellingar í málinu. „Það er verið að dæma um það, að athafnir verjenda í starfi geti leitt til þess að sakborningur sé verr settur en áður. Þetta er ekkert smámál.“
Hann sagði samskipti við vitni einu leiðina fyrir verjendur til að upplýsa um atvik máls, enda varpi sérstakur saksóknari 10-20 þúsund skjölum í fangið á þeim. Það sé ekki einfalt mál að kafa eftir svörum í slíku skjalaflóði. Þá benti hann á að rannsókn mála sé löngu lokið þegar samskipti sem þessi fari fram. Ef þetta geti leitt til þess að menn séu sakfelldir þá vilji hann fá að vita það fyrirfram. „Þetta er grundvallaratriði og dómarar verða að taka ákvörðun um það.“
Arngrímur sagðist vel skilja að verjendur velti þessu fyrir sér eftir dóminn. „En ég átta mig ekki á hvernig ég á að gefa fyrirmæli um hvað lögmenn gera í sínum undirbúningi.“ Hann tók fram að hann líti ekki svo á að aðfinnsla í Al-Thani-málinu sé fordæmisgefandi. Til þess að svo sé þurfi Hæstiréttur að staðfesta hana. Þá sagðist hann ekki sjá möguleika á að úrskurða um þetta atriði.
Það er því enn í lausu lofti hvernig verjendur í þessum málum mega haga samskiptum sínum við vitni án þess að framburður þeirra verði metinn ótrúverðugur við aðalmeðferð í þessum málum.