Björgunarsveit komin á vettvang

Björgunarsveitarmenn eru nú komnir á slysstað við Breiðamerkurjökul við mynni Veðurárdals þar sem maður féll og slasaðist er hann var við klifur í íshelli. Unnið er að því að ná í manninn sem féll ofan í svelg, en upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir að svo stöddu. Má reikna með því að björgunaraðgerðir taki um eina klukkustund.

Annar leiðsögumaðurinn er nú kominn niður af jöklinum, ásamt tveimur farþeganna, og eru þeir í skoðun hjá sjúkraflutningamönnum frá Höfn.

Annar hópur björgunarmanna er á leið upp jökulinn til að aðstoða við flutning þess slasaða niður í sjúkrabíl. Erfitt er að áætla hversu langan tíma það tekur þar sem ekkert fjarskiptasamband er inni í íshellinum.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg var 12 manna hópur björgunarsveitarmanna fyrstur á vettvang um kl. 16:40. Fjarskiptasamband inni í hellinum er slæmt og þar af leiðandi liggja nánari upplýsingar ekki fyrir að svo stöddu. Vonast er til að hægt verði að koma manninum í sjúkrabíl eftir um klukkutíma.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Höfn og úr Öræfum voru kallaður út á fjórða tímanum í dag vegna slyssins. 

Fram kom í tilkynningu að um væri að ræða hóp fólks sem var þar við ísklifur; tvo leiðsögumenn og þrjá ferðamenn.

Þyrla Landhelgisgæslu er einnig á leið á staðinn með fjallabjörgunarmenn af höfuðborgarsvæðinu. Þá voru sóttir björgunarsveitarmenn sem eru við störf hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í Skaftafelli og eru þeir einnig á leið á staðinn. 

Uppfært kl. 18:44

Enn er unnið að því að koma manninum, sem er á sjötugsaldri, upp úr hellinum. Upplýsingar um meiðsl mannsins liggja ekki fyrir.

Slys við Breiðamerkurjökul

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert