Dómari hafnaði kröfum Kaupþingsmanna

Lögfræðiteymi fyrrverandi stjórenda Kaupþings í héraðsdómi.
Lögfræðiteymi fyrrverandi stjórenda Kaupþings í héraðsdómi. mbl.is/Styrmir Kári

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfum sex af níu sakborningum í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnendum í Kaupþingi banka. Þeir eru sakaðir um stórfellda markaðsmisnotkun í aðdraganda bankahrunsins og gerðu þá kröfu að málinu yrði vísað frá dómi.

Við munnlegan málflutning sögðu verjendur að það stæði ekki steinn yfir steini í ákæru sérstaks saksóknara og málflutningi ákæruvaldsins. „Það er ekki hægt að verjast sakargiftum um þá háttsemi sem sakborningum er gefin að sök, því þá háttsemi er ekki að finna í ákærunni,“ sagði Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings banka, meðal annars.

Björn Þorvaldsson, sækjandi í málinu fyrir hönd sérstaks saksóknara, sagði hins vegar að í stórri og flókinni ákæru væri alltaf hægt að taka út einstaka orð og segja að ákæran væri óskýr. Þá benti hann á að margar af þeim málsástæðum sem verjendur tefldu fram sneru að efni málsins en ekki formi þess, og bæri að taka til skoðunar við aðalmeðferð.

Málið gegn nímenningunum er eitt það umfangsmesta sem sérstakur saksóknari hefur sent frá sér. Þeim er gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf útgefin í bankanum. Í ákærunni segir sérstakur saksóknari að mörg brotanna hafi verið þaulskipulög, staðið yfir í langan tíma og varðað gríðarlegar fjárhæðir.

Sakborningar í málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fv. forstjóri bankans, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, fv. forstöðumaður eigin viðskipta í bankanum, Magnús Guðmundsson, fv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Bjarki H. Diego,  fv. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. verðbréfasalar eigin viðskipta í Kaupþingi, og Björk Þórarinsdóttir sem sat í lánanefnd kaupþings og starfaði á fyrirtækjasviði

Eftir að ljóst varð að kröfunni væri hafnað óskuðu verjendur eftir tveggja vikna fresti til að leggja fram matsbeiðni. Var orðið við því og verður málið tekið fyrir næst 17. febrúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert