Engin lestrarkennsluaðferð hefur verið raunprófuð hér á landi

Ungir lestrarhestar.
Ungir lestrarhestar. mbl.is/Styrmir Kári

Engin lestrarkennsluaðferð hefur verið raunprófuð hér á landi, en með því er átt við vísindalegar prófanir með viðurkenndum aðferðum. Það á bæði við um hljóðaaðferðina, sem notuð hefur verið við lestrarkennslu í áratugi, og nýrri aðferðir, eins og byrjendalæsi, sem nú er notuð í um helmingi íslenskra skóla.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Hermundur Sigurmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi, að rannsóknir sýni að svokölluð hljóðaaðferð komi best út í upphafi lestrarkennslu. Hann gagnrýnir þar að notuð sé lestrarkennsluaðferðin byrjendalæsi, þar sem hún sé ekki raunprófuð og segir slakan árangur íslenskra grunnskólanemenda í síðustu Pisa-könnun benda til þess að bæta þurfi lestrarkennsluna. 

Bandarískar rannsóknir að baki byrjendalæsi

Þóra Rósa Geirsdóttir er sérfræðingur í skólaþróun hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og og starfar við innleiðingu byrjendalæsis. Hún segir aðferðina byggða á erlendum rannsóknum, m.a. bandarískum. „Þetta er bæði viðurkennd og rannsökuð aðferð. Hún varð til þegar farið var að skoða læsisárangur, sem ekki var talinn vera nægilega góður. Í henni felst m.a. nálgun á lestrarnámið ýmist út frá heild eða eind, þ.a. út frá heilum orðum eða einstökum hljóðum, líkt og hljóðaaðferðin. Þannig að hljóðaaðferðin er hluti af aðferðinni. Í stuttu máli sagt er verið að bjóða upp á nálgun frá fleiri en einni hlið, því það læra ekki allir á sama hátt.

Verið er að rannsaka aðferðina

En það er alveg rétt að það er ekki búið að rannsaka byrjendalæsisaðferðina hér á landi, en reyndar veit ég ekki til þess að nein lestrarkennsluaðferð hafi verið rannsökuð hér á landi. Við byggjum mikið á erlendum rannsóknum,“ segir Þóra Rósa. „En núna er í gangi stór rannsókn á byrjendalæsi á vegum HÍ og HA, auk fleiri aðila Hún er mjög víðtæk, þar er m.a. verið að rannsaka hvernig kennarar læra að kenna lestur.“

Að sögn Þóru Rósu var byrjað að nota byrjendalæsi við lestrarkennslu árið 2005. Sjálf hefur hún starfað við kennslu frá árinu 1973 og segir kennara almennt notast við fleiri en eina aðferð. 

Spurð hvort einstakir kennarar ráði hvaða aðferð þeir noti við lestrarkennslu, hvort það sé ákvörðun skólanna eða jafnvel sveitarfélaganna í heild segir hún allan gang á því. „Áður var það oft þannig að kennarar réðu þessu og komu misundirbúnir til verksins. Þar sem byrjendalæsi er kennt er það yfirleitt gert í allri byrjendakennslunni.“

Notuð sé aðferðafræði sem ekki ýtir undir kynjamismun

Hermundur bendir á að þegar nýjar aðferðir á borð við byrjendalæsi séu teknar upp þurfi að bera þær saman við þær aðferðir sem þegar hafi verið notaðar og gefist vel. Hann segir fjölmargar rannsóknir sýna að hljóðaaðferðin sé sú aðferð sem henti flestum börnum í upphafi lestrarnáms, hún sé sú viðurkenndasta og að auki ýti hún ekki undir kynjamismun í lestrarárangri. „Við verðum að nota aðferðafræði sem ekki ýtir undir kynjamismun,“ segir hann. „Það getur ekki verið ásættanlegt að það sé svona mikill munur á lestrarfærni stráka og stelpna.

Stafir og hljóð mikilvægasti þátturinn

Það sem ég set spurningarmerki við er: Af hverju notum við ekki þær aðferðir sem bæði reynslan og rannsóknir hafa sýnt að gefist best,“ segir hann.  

Helsta gagnrýni Hermundar á byrjendalæsi er að þar sé byrjað á heildinni, þ.e. heilum orðum, og síðan farið í einstaka bókstafi og hljóð þeirra. „Að læra bókstafi og hljóð þeirra er mikilvægasti þátturinn í lestrarfærni. Það sem ég er að biðja um er að við skoðum nákvæmlega það sem við erum að gera.“

Þóra Rósa Geirsdóttir
Þóra Rósa Geirsdóttir
Hermundur Sigmundsson rófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi …
Hermundur Sigmundsson rófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert