Slys við Breiðamerkurjökul

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Höfn og úr Öræfum hafa verið kallaðar út vegna slyss við Breiðamerkurjökul. Um er að ræða hóp fólks sem var þar við ísklifur og virðist einn úr hópnum hafa hrapað og er talinn slasaður.

Þyrla Landhelgisgæslu er einnig á leið á staðinn með fjallabjörgunarmenn af höfuðborgarsvæðinu. Einnig voru sóttir björgunarsveitarmenn sem eru við störf hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í Skaftafelli og eru þeir einnig á leið á staðinn. Staðsetning er ekki nákvæmlega vituð þar sem fjarskipti eru slitrótt við mennina. Þó er talið að þetta sé í íshelli við norðausturhluta Jökulsárlóns, segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni lagði þyrlan af stað um klukkan 15:30. Mótvindur er á leiðinni og er þar af leiðandi mun það taka þyrluna lengur að komast á vettvang að sögn Landsbjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka