Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í gær kröfu fernra náttúrverndarsamtaka um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna framkvæmda við Álftanesveg. Áður hafi samskonar kröfu verið hafnað í máli varðandi lögbannskröfu samtakanna vegna vegarlagningarinnar.
Á vef Vegagerðarinnar segir að tvö dómsmál séu í gangi vegna Álftanesvegar. Annars vegar mál þar sem Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir vilja fá hrundið ákvörðun sýslumanns um að synja lögbanni, en sýslumaður vísaði lögbannskröfu frá á þeirri forsendu að samtökin ættu ekki lögvarða hagsmuni og því ekki aðild að málinu. Samtökin höfðuðu dómsmál til að fá ákvörðuninni hnekkt. Í því máli var farið fram á að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins en héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu því.
Hitt málið snýst um vegarlagninguna sjálfa og lögmæti hennar á þeim grundvelli að umhverfismat og framkvæmdaleyfi séu ekki gild. Í því máli var einnig óskað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.