Leikskólinn 101 gjaldþrota

Leikskólinn 101 var staðsettur við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.
Leikskólinn 101 var staðsettur við Bræðraborgarstíg í Reykjavík. mbl.is/Rósa Braga

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Leikskólinn 101 ehf. verði tekinn til gjaldþrotaskipta, en úrskurðurinn var kveðinn upp 22. janúar sl. Kastljós fjölmiðlanna beindist að leikskólanum á síðasta ári í kjölfar ásakana um meint harðræði starfsmanna gagnvart börnum.

Lögreglan hóf í kjölfarið rannsókn og stendur sú rannsókn enn yfir.

Málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn leikskólans sýndu Barnaverndarnefnd Reykjavíkur myndskeið þann 27. ágúst í fyrra og tilkynntu málið formlega. Einnig hefur komið fram að fjármál leikskólans væru til skoðunar hjá skattrannsóknarstjóra. 

Í lokabréfi Barnaverndar til foreldra barna á leikskólanum kom fram að sýnt þætti að annmarkar hefðu verið á starfsemi ungbarnaleikskólans og að ómálga börn hefðu verið beitt harðræði. 

Alls dvaldi 31 barn á leikskólanum en börnin voru 9-18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans voru níu talsins. Líkt og áður hefur komið fram ákvað Hulda Linda Stefánsdóttir, eigandi Leikskólans 101, að hætta rekstri ungbarnaleikskólans.

Skorað er á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá fyrri birtingu innköllunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert