Líkunum ýtt út í sjóinn

Elín og starfsfólk Rauða Krossins í Filippseyjum.
Elín og starfsfólk Rauða Krossins í Filippseyjum.

„Ég hitti varla manneskju sem hafði ekki að minnsta kosti lent í því að þakið fauk af,“ segir Elín Jónasdóttir. Elín starfaði sem sálfræðingur með neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins með hópi sérfræðinga sem fengnir voru til að skipuleggja hjálparstarf í kjölfar hamfaranna þegar fellibylurinn Yolanda gekk yfir Filippseyjar.

Elín fékk það hlutverk að skipuleggja áfallahjálp og sálrænan stuðning sérstaklega fyrir bæði þolendur hamfaranna og starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem vinna við mjög erfiðar aðstæður til að vinna úr þeim áföllum sem mæta þeim í starfi.

„Ég var ekki á einum stað heldur flakkaði töluvert um, einkum milli borganna Tacloban, Ormoc og Cebu. Mitt starf var skipulagning á sálfélagslegum stuðningi á mismunandi svæðum, sem beindist að starfsfólki Rauða Krossins.“

Elín er margreyndur sendifulltrúi Rauða krossins í áfallahjálp, og vann að svipuðu verkefni á Sri Lanka í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Suður- og Suðaustur Asíu árið 2005. 

Múrsteinar og steypustyrktarjárn kringum flugvöllinn

„Það fer mikill tími og orka í að samhæfa og kortleggja hvað fólk er að gera. Mín reynsla er oft sú að Rauði Krossinn er oft á þeim stöðum sem eru hvað erfiðastir. Þegar ég kom að höfuðstöðvunum í Tacloban blöstu við mér stórar vinnuvélar, sem filippseyski Rauði Krossinn var búinn að fjárfesta í og sendi víða um landið. Ég vissi ekki hvernig ætti að koma þeim um landið, en þær hafa áreiðanlega gert gagn.“ 

Alþjóðaflugvöllurinn í Tacloban var að hennar sögn í slæmu ástandi eftir hamfarirnar, þó svo að búið hafi verið að hreinsa ágætlega til. Allt i kringum flugvöllinn voru hrúgur af múrsteinum og steypustyrktarjárni.

Hún segir að sjálfboðaliðum hafi oft að því er virðist fallist hendur, en á aðeins örfáum mínútum tókst þeim tekist að skipuleggja sig og hefjast handa við að skipuleggja ýmis konar hjálparstarf. „Þarna tóks átta manneskjum á aldrinum 20 til 30 ára að sinna og hafa stjórn á mjög stórum hópi barna. Það var alveg ótrúlegt.“

Hermenn að byggja spítala

Elín segir að það hafi komið henni á óvart að sjá hermenn aðstoða við að byggja sjúkrahús. „Það er eitthvað sem ég hef ekki alltaf séð áður,“ en Elín hefur oft unnið á hamfarasvæðum á vegum Rauða Krossins.

Hún segir að margt starfsfólk Rauða Krossins hafi verið sólarhringum saman í húsnæði Rauða Krossins. Þegar hún spurði það hvar það svæfi, þá brosti það iðulega og segðist alltaf finna sér eitthvað. Hún sagði sögu af einni konu sem starfar fyrir fyrir Rauða Krossinn og tókst með ótrúlegum hætti að bjarga sonum sínum tveimur úr bíl þeirra, sem hafði einhvern veginn skorðast í vatnselgnum. 

Líkunum ýtt út í sjóinn

Hún ræddi mikið við starfsfólk Rauða Krossins í Filippseyjum til að kanna líðan þess. „Það var gaman að sjá að það var ekki bara talað um hlutina, heldur var líka farið í leiki til að vinna úr þessu.“

Hún segir þau gera grín að því sem fólkið kallaði Tacloban-mataræðið: Sardínur í morgunmat, sardínur í hádegismat, sardínur í kvöldmat.

Elín segir starfsfólkið hafa dagana eftir að fellibylurinn gekk yfir landið raðað líkum saman hlið við hlið svo að fólk gæti komið og borið kennsl á ættingja sína.

„Eftir átta daga voru mörg lík sem ekki var búið að bera kennsl á, og þau fóru að lykta og íbúunum fannst óþægilegt að sjá þetta. Starfsfólkinu varð því mjög brugðið þegar íbúarnir í kring fóru að ýta líkunum út í sjó. Þau skildu það í sjálfu sér, en fannst það líka vanvirðing við hina látnu og þýddi að ættingjar gætu sennilega aldrei borið kennsl á ástvini sína.“

Elín Jónasdóttir
Elín Jónasdóttir Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert