Bæjarráð Kópavogs ákvað á fundi sínum í morgun að fela umhverfissviði bæjarins, fjármálastjóra og félagsmálastjóra, að gera tillögu að því með hvaða hætti best sé að standa að kaupum á félagslegum íbúðum og byggingu leiguíbúða í samræmi við umdeilda tillögu fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs. Fulltrúar meiri- og minnihluta segja þetta góða niðurstöðu. Tillaga minnihlutans um viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins var felld.
Litið verður til þess hvort með með hvaða hætti kaup félagslegu íbúðanna rúmist innan svigrúms fjárhagsáætlunar. Áætla á heildarverð þeirra og í framhaldi af því hvort þörf sé á viðauka við fjárhagsáætlun. Þá verður metið hvort íbúðirnar verði keyptar í gegnum útboð og með hvaða hætti kaupin muni hafa áhrif á fasteignaverð í bænum.
Bæjarráðið felur sviðsstjóra umhverfissviðs og deildarstjóra lögfræðideildar bæjarins að gera tillögu um staðsetningu lóða vegna byggingar fjölbýlishúsa sem hugsuð eru fyrir leiguíbúðir. Einnig á að kanna hvort sveitarfélagið geti haft frumkvæði að stofnun leigufélags með fleiri aðilum og myndi framlag bæjarins þá vera í formi lóða.
Þessum úttektum og tillögum á að skila 1. mars.
Forsaga málsins er að fulltrúar minnihlutans, sem eru Samfylking, VG og Næstbesti flokkurinn, auk Gunnars Birgissonar, samþykktu á fundi bæjarstjórnar um miðjan janúar að kaupa 30-40 félagslegar íbúðir í bænum og byggja að auki tvö fjölbýlishús með leiguíbúðum. Annar bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Aðalsteinn Jónsson, sat hjá.
Meirihlutinn í bæjarstjórn, sem eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Y-listans, sögðu tillöguna skorta lagaheimild og yrði af framkvæmdunum myndu þær kosta bæinn um þrjá milljarða króna. Í kjölfar þessa urðu breytingar á lánshæfismati Kópavogs úr stöðugum horfum í neikvæðar.
Á fundi bæjarráðs í morgun lögðu fulltrúar meirihlutans fram bókun þar sem fram kemur að framkvæmdirnar verði ekki fjármagnaðar öðruvísi en með lántöku, því útilokað sé að reikna með tekjum af lóðasölu sem hreinum tekjum á móti kostnaði. T.d. þurfi að fara í fjárfreka gatnagerð á þeim svæðum sem hugsuð eru undir nýbyggingar.
Þá lagði meirihlutinn áherslu á að bæjarfulltrúar hefðu heitið lánastofnunum að tekjur af lóðasölu færu til niðurgreiðslu skulda. Í þessu sambandi var minnt á endurskoðun Reitunar þar sem lánshæfismat Kópavogsbæjar var fært úr stöðugum horfum í neikvæðar. Óábyrgt sé að samþykkja tillögu um veruleg fjárútlát bæjarins sem ekki eru á fjárhagsáætlun og ekki liggja fyrir útreikningar og beinhörð gögn frá tillöguhöfum.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir að í morgun hafi málið í fyrsta skiptið verið nálgast með faglegum hætti. „Það er ljóst að minnihlutinn hefur fallið frá þeim vinnubrögðum sem lagt var upp með og ég gagnrýndi harðlega. Nú verður málið sett í annan og faglegri farveg, eins og markmiðið var, með skipan þverpólitískrar nefndar. Ákvarðanir verða því ekki teknar fyrr en fyrir liggja greinargerðir um fjárhagsleg áhrif tillagnanna.“
Í sama streng tekur Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG sem er einn þeirra sem lagði fram upphaflegu tillöguna. „Það sem við lögðum fram í morgun er í raun nánari útfærsla á tillögunni sem við lögðum fram 14. janúar. Það er ánægjulegt að það náðist ágætis samstaða um þessa tillögu og ég hlakka til að vinna þetta áfram. Þetta er það mikið hagsmunamál, þessi niðurstaða er til hagsbóta fyrir alla bæjarbúa.“
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, bar upp tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins, en hún var felld. Guðríður hafði áður lagt fram tillöguna á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku, en þá var hún ekki tekin fyrir. Sama tillaga var einnig lögð fram á fundi bæjarráðs fyrir tveimur vikum, en þá óskaði bæjarstjóri eftir frestun. „Ég mun óska eftir því að hún verði tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í næstu viku,“ segir Guðríður og segist ætla að gæta þess að hún verði á dagskrá.
Spurð um hvort hún telji, líkt og Ármann og Ólafur Þór að sátt hafi náðst um málið segir hún þá sátt aðallega hafa beinst að ýmsum þáttum sem embættismenn bæjarins muni fari yfir og almennt um aðkomu Kópavogsbæjar að húsnæðismálum.