Við vonum að þið hafið fundið fötin ykkar

Hrönn með ungum dreng sem sótti heilsugæslu til Rauða Krossins.
Hrönn með ungum dreng sem sótti heilsugæslu til Rauða Krossins.

Hrönn Håkansson sinnti algjörri grunnheilsugæslu við Balangiga í Filippseyjum í kjölfarið á því að fellibylurinn Yolanda gekk yfir eyjarnar. Hún sagði frá reynslu sinni á fyrirlestri í dag. 

„Þegar ég kom leit landið mjög illa út,“ segir hún, og bendir á að pálmatrjáaskógur sem var þar áður á tilteknu svæði var nánast jafnaður við jörðu. Heimamenn tóku undir með henni um hvað útsýnið væri gott - þeir höfðu aldrei séð það áður fyrir skóginum. Trén höfðu meira og minna öll brotnað í storminum.

Hrönn hélt til starfa á Filippseyjum í byrjun desember. Hrönn vann á tjaldsjúkrahúsi við mæðravernd og ungbarnaeftirlit í bænum  Balangiga sem er á Samareyju. Hún vann einnig á færanlegri sjúkrastöð sem sinnti heilsugæslu í afskekktum byggðum í nágrenni Balangiga. Hrönn var, rétt eins og Orri Gunnarsson, í fyrsta sinn að störfum á vettvangi fyrir Rauða krossinn. 

Heilsugæsla á hjólum

"Þrátt fyrir að aðstaðan á heilsugæslustöðinni hafi verið hræðileg eftir storminn, þá var starfsfólkið mjög gott og faglegt," segir hún. 

„Þjónustan sem var veitt er svokallað „mobile clinic“,“ sagði hún, og af myndum að dæma var um nokkurskonar heilsugæsla á hjólum að ræða. „Á hverjum degi fórum við eitthvert þangað sem okkar var þörf. Um 100 manns sóttu heilsugæslu hjá okkur á hverjum degi." Heilsugæslu var slegið upp í tjaldi, þar sem börn komu í skoðun, bólusetningu og þau sinntu öllu því sem venjuleg heilsugæsla sinnir,“ segir hún.

Hrönn segir börn hafa verið stærsta hópinn sem kom til þeirra, bæði vegna þess að stór hluti Filippseyinga eru börn, auk þess sem þau léku sér tiltölulega frjáls á ströndinni eða höfninni, og meiddu sig.

„Ein stúlka lenti til dæmis í mótorhjólaslysi, þar sem fjögurra manna fjölskylda var á einu mótorhjóli." Eldri stelpan var töluvert slegin og sagði móðirin til að mynda að dóttirin gréti mikið heima. Ég bað hana að teikna fyrir okkur myndir, sem hún sýndi okkur, og þá sagði móðirin að hún væri hætt að gráta, þannig að hún fékk liti og litabók.“

Fæðingarþjónustuna segir hún hafa verið sérstaka, því mæður hafi nánast verið komnar að fæðingu þegar þær komu, og voru sjaldnast lengur en í nokkra klukkutíma.

Hún hafði meðal annars það hlutverk að afhenda bréf frá Rauða kross deildinni í Garðabæ til barnanna í skólanum sem voru oft á þessa leið: „Við fréttum að þið hefðuð lent í ofsa vondu veðri, en vonum að þið séuð búin að finna fötin ykkar.“

Sendifulltrúar enn að störfum

Aðrir sendifulltrúar Rauða krossins sem unnu við hjálparstarf á Filippseyjum voru þær Magna Björk Ólafsdóttir og Lilja Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingar, sem báðar hafa mikla reynslu af störfum á vettvangi, og Aleksandar Knezevic rafvirki, sem er margreyndur í hjálparstarfi fyrir Rauða krossinn.

Þá var Karl Sæberg Júlísson einnig við hjálparstörf á hamfarasvæðinu. Karl er einn reyndasti öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hafði yfirumsjón með uppsetningu öryggisferla í neyðaraðgerðunum.  Lilja og Aleksandar eru enn að störfum.

Hrönn Håkansson
Hrönn Håkansson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Fjölskylda sem lenti í mótothjólaslysi stuttu eftir að hamfarirnar gengu …
Fjölskylda sem lenti í mótothjólaslysi stuttu eftir að hamfarirnar gengu yfir landið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert