Nýr íslenskur söngleikur, Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter, verður frumsýndur í New York í sumar. Höfundur er Ívar Páll Jónsson, og er þetta hans fyrsti söngleikur, en leikstjóri verður Bergur Þór Ingólfsson. Verkefnið er að fullu fjármagnað hér heima en að því standa Mostly Human Entertainment og Theater Mogul. Sýnt verður í Off-Broadway-leikhúsi.
Tvær ástæður eru fyrir því að verkið er frumsýnt erlendis en ekki hér heima. „Annars vegar er það stíllinn. Þetta er indie-tónlist sem höfðar til ákveðins markhóps og þess vegna er betra að vera á stóru markaðssvæði. Hins vegar er það umfangið. Verkið er stórt í sniðum og þar sem söngleikjamarkaðurinn er lítill hér heima er vænlegra að freista gæfunnar erlendis,“ segir Ívar Páll.
Bergur Þór veit ekki til þess að íslenskur söngleikur hafi verið settur upp erlendis áður og örugglega ekki í New York. „Aðstandendur verksins eru helvíti áræðnir að gera þetta og ég er alltaf til í að stökkva í reið með slíkum hestum. Ég var í Bandaríkjunum með Karli Pétri Jónssyni framleiðanda um daginn og þar ráku menn upp stór augu þegar þeir áttuðu sig á því að við ætluðum að byrja svona stórt. Leiðin er yfirleitt lengri þarna úti.“
Spurður um væntingar viðurkennir Ívar Páll að hann renni blint í sjóinn. Það sé samt frekar kostur en galli að koma ferskur inn á þennan markað.
„Það er brjálæðisleg samkeppni í leikhúsheiminum í New York en á móti kemur að markaðurinn er mjög stór. Við munum reyna allt sem í okkar valdi stendur til að láta þetta virka og meira getum við ekki gert. Ég hef tröllatrú á þessu verki og er reiðubúinn að setja undir mig hausinn eins og þarf. Þetta er maraþonverkefni og ég hef mörgum sinnum tekið eitt skref aftur á bak til að geta svo tekið tvö skref áfram. Ekki kemur til greina að gefast upp núna.“
Nánar er fjallað um málið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.