Hótuðu bílstjóra með sprautunál

Notuð sprautunál
Notuð sprautunál AFP

Lögreglan handtók par í Hafnarfirði um átta leytið í gærkvöldi en það vildi ekki greiða ökugjald og hafði hótað leigubílstjóranum með notaðri sprautunál. Maðurinn er einnig grunaður um nytjastuld bifreiðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gistir parið fangageymslur.

Um hálfníu leytið í gærkvöldi var maður handtekinn í húsnæði í miðborginni grunaður um vörslu / sölu fíkniefna en hjá honum fannst töluvert magn fíkniefna.  Maðurinn var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.   

Lögreglan stöðvaði ferð bifreiðar í Höfðahverfi um tíuleytið í gærkvöldi en ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna og með fíkniefni á sér er hann var stöðvaður.

Bifreið var stöðvuð á Vatnsendavegi af lögreglu um hálf eitt leytið í nótt. Ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.

Upp úr klukkan tvö í nótt voru afskipti höfð af erlendum ferðamanni á gististað hans í miðborginni.  Maðurinn er grunaður um neyslu og vörslu fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í veitingahús í miðborginni.  Tilkynnt var um mann hlaupa frá vettvangi en hann hefur ekki náðst og ekki er vitað hvað hann hafði nákvæmlega á brott með sér.

Ölvaður ökumaður var síðan stöðvaður í miðborginni á fjórða tímanum í nótt.

Skömmu fyrir miðnætti var bifreið ekið á ljósastaur við N1 á Bíldshöfða og þurfti að flytja bifreiðina á brott með Króki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert