Neyðarkallið sem hleypti af stað mikilli leit á Faxaflóa á sunnudag kom úr vhf-talstöð og gæti þess vegna hafa verið sent með handstöð eða bílstöð, að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.
Talið er að kallið hafi verið sent úr 10 sjómílna fjarlægð frá Akranesi en ekki er hægt að þrengja hringinn meira og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort upptaka af neyðarkallinu verði spiluð opinberlega til að freista þess að einhver þekki rödd þess sem kallaði. Kanna þarf hvort slík birting sé leyfileg.
Neyðarkallið barst kl. 14:54 á rás 16, sem er neyðar- og uppkallsrás báta og skipa. Það heyrðist bæði í stjórnstöð Gæslunnar og í björgunarbátnum Margréti Guðbrandsdóttur sem var í höfn á Akranesi.