Hjördís í fjögurra vikna farbann

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir
Hjördís Svan Aðalheiðardóttir

Dómari í Horsens í Danmörku hafnaði í gær kröfu lögreglu og ákæruvalds þar í landi þess efnis að Hjördís Svan Aðalheiðardóttir skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Þess í stað var hún sett í farbann í Danmörku í fjórar vikur á meðan mál hennar, er varðar för hennar með börn sín til Íslands sl. sumar, er til meðferðar fyrir dómstólum.
 
Í fréttatilkynningu frá lögmanni Hjördísar hér á landi segir að lögmaður Hjördísar Svan í Danmörku, Thomas Berg, telji hugsanlegt að hún verði komin heim til Íslands innan þessa tíma. Telur hann góðar líkur á sýknu þar sem Hjördísi hafi ekki aðeins verið rétt heldur skylt á grundvelli nauðvarnar að forða börnunum úr þeim aðstæðum sem þau bjuggu við. Mun þess verða krafist að nýleg gögn er varða meint harðræði verði tekin til umfjöllunar ekkert síður en kæra föður um brottnám barnanna.
 
„Mál þetta hefur ekki verið flutt í fjölmiðlum af hálfu undirritaðra lögmanna þar sem um viðkvæm persónuleg mál er að ræða. Eigi að síður neyðumst  við undirrituð nú til að mótmæla röngum fullyrðingum, sem hafðar eru eftir Láru V. Júlíusdóttur hrl. í Fréttablaðinu í morgun, en hún virðist ganga út frá því að maðurinn geti birst hér á landi með danskan undirréttardóm í farteskinu og fengið sér afhent börnin tafarlaust og án undangenginnar málsmeðferðar fyrir íslenskum dómstólum.
 
Hjördís Svan og börn hennar máttu sæta slíkri ólögmætri aðför sumarið 2012 þar sem ekki var farið að lögum við framkvæmdina af hálfu íslenskra yfirvalda. Þetta hefur innanríkisráðuneytið  staðfest með bréfi sínu til sýslumannanna á Höfn og í Kópavogi frá 23. ágúst 2013 sl. Sú lögleysa verður ekki endurtekin. Athygli vekur að lögmaðurinn skuli vera með einhverjar slíkar bollaleggingar og vekur þá spurningu: Hvers vegna vill faðirinn forðast að fara í svokallað „brottnámsmál“ á grundvelli laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. nr. 160/1995? Í slíku máli gefst báðum aðilum færi á að flytja mál sitt og leggja fram gögn málstað sínum til stuðnings.
 
Varðandi þá túlkun lögmannsins að barnaverndaryfirvöld eigi tafarlaust að taka börnin frá móðurfjölskyldunni skal því einnig mótmælt þar sem þau eiga ekki aðkomu að málum þar sem enginn ágreiningur er um að velferð barnanna er borgið. Börnin hafa fengið skínandi vitnisburði frá íslenskum skólayfirvöldum þar sem fram kemur að þau hafi haft góðan framgang í námi og búið við gott atlæti,“ segir í fréttatilkynningu frá Hreini Loftssyni hrl. og Kristínu Ólafsdóttur hdl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert