Vítisenglar yfirgefa Hafnarfjörð

Vítisenglar, Hells Angels
Vítisenglar, Hells Angels Af vef Europol

Bifhjólasamtökin Hells Angels höfðu komið sér vel fyrir í Hafnarfirði og voru bækistöðvar samtakanna á Gjáhellu í Hafnarfirði. Nú eru samtökin hins vegar flutt úr Firðinum. Bifhjólasamtökin Outlaws eru hins vegar enn í bænum en hafa sjaldan verið fámennari. Þetta kemur fram í frétt Gaflara en ekki er tekið fram í fréttinni hvert Vítisenglar fluttu.

Morgunblaðið sagði frá því 11. febrúar í fyrra að Vítisenglar væru búnir að yfirgefa sitt gamla félagsheimili við Gjáhellu 5 í Hafnarfirði. Þá þegar var búið að taka niður skilti með nafni glæpasamtakanna sem setti mikinn svip á húsið.

Ástæðan var sú að Landsbankinn eignaðist húsið á nauðungaruppboði í lok október árið 2012. Í kjölfarið var leigusamningi við Vítisengla sagt upp. Samtökunum var gert að yfirgefa húsið fyrir miðjan janúarmánuð og gerðu þeir það, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Á húsinu, eða húshlutanum, því um er að ræða húsalengju, hvíldi lán frá Landsbankanum sem leysti það til sín fyrir 12 milljónir. Fyrri eigandi var H. V. Fjárfestingar ehf.

Tveir þekktustu vélhjólaklúbbar landsins, Hell's Angels og Outlaws, sem teljast tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, höfðu báðir aðsetur í Hafnarfirði; Hell's Angels á Gjáhellu og Outlaws á Hvaleyrarbraut, samkvæmt frétt Gaflara.

Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir við Gaflara að samtökin Hell's Angels séu flutt úr bænum og félögum í Outlaws hafi fækkað mjög undanfarið. „Lögreglan telur sig hafa yfirhöndina í baráttunni við vélhjólagengi en þó ber að varast að draga ályktanir. Líklegt verður að teljast að gengin reyni að styrkja sig á næstu misserum þótt lögreglan haldi áfram uppi öflugri vinnu gegn því þjóðfélagsmeini sem vélhjólagengi eru.“

Sjá nánar á Gaflari.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka